150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ákvað að veita andsvar. Hv. þingmaður er að mörgu leyti mér að skapi, mjög stilltur og prúður þingmaður. En ég ætla að vekja athygli á þessari ræðutækni Miðflokksmanna sem færði okkur Íslandsmet í málþófi sem stóð í 120 eða 140 klst. í fyrra. Nú er þetta aftur á dagskrá og í þessu tilviki út af borgarlínu. Þeir endurtaka jafnvel ræður og hér er verið að hökta á einu og sama málinu sem er frumvarp um fyrirtæki ríkis og borgar vegna höfuðborgarsáttmála. Menn eru í 11. og 12. ræðu og svo fáum við 20. ræðuna síðar. Ég lít á þetta sem aðferðafræði, gamalkunna aðferðafræði tafa, sem ég hef áður kallað ógn við þingbundna lýðræðið. Þetta eru gamalkunnir taktar frá síðasta sumri sem ég er orðinn mjög þreyttur á.

Alvarleikinn núna snýst um að verið er að tefja framgang mikilvægs máls, samgönguáætlunar upp á margra milljarða frumkvæði og framkvæmdir sem beðið er eftir um allt land. Þetta eru flugvellir, hafnir, brýr, vegir, jarðgöng. Spurningarnar eru: Er Miðflokkurinn að bíða eftir samþykktum sveitarfélaga um allt land þar sem rekið er á eftir því að þetta verði afgreitt lögbundið á þessu þingi? Hvernig rímar þessi umræða við það sem á eftir fer, frumvarpið um höfuðborgarsáttmálann, fyrirtækið, frumvarpið um samvinnuverkefni, og hvar á þetta að rúmast í dagskrá þingsins sem á að taka langþráð hlé, líka starfsfólksins vegna, í næstu viku?