150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:24]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að tala um að sá sem hér stendur sé prúður og stilltur. Það er seinni tíma hól sem ég hef fengið, ég var það ekki hér fyrr á árum þannig að eitthvað hefur lagast í áranna rás. Er ég mjög þakklátur fyrir að fá það hrós frá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni vegna þess að ég ber mikla virðingu fyrir honum. En varðandi það að málþóf sé í gangi þá veit ég ekki hvort hægt er að flokka það undir málþóf sem hér er í gangi. Það er verið að ræða hér um samgönguáætlun og mikill tími hefur farið í borgarlínuumræðuna. En ég verð bara að segja, eins og ég sagði í ræðunni áðan, að mest af mínum tíma fór í að ræða um samgöngur á landsbyggðinni þar sem ég kem af landsbyggðinni og ég vitnaði einmitt í umsagnir sveitarfélaganna. Þar er því fagnað að unnið hafi verið að því í samgöngunefnd að hnika málum til, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, og þar minntist ég á lítillæti.

Það er alkunna í áranna rás að málþófsaðferðin er tæki sem stjórnarandstaðan hefur stundum notað til að hreyfa við málum sem eru óhreyfð. Ef hv. þingmanni finnst við standa í málþófi veit ég ekki hvort leiða megi líkur að því að það séu kannski einhver mál sem við í Miðflokknum viljum fá í betri stöðu. En þingmaðurinn fór vítt og breitt yfir sviðið og ég næ ekki að svara fleiri spurningum í þessari ræðu.