150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:26]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, já, það er gamalkunn aðferð að beita málþófi á Alþingi og hefur viðgengist í áratugi. En því fylgir líka ábyrgð og ábyrgðin er fólgin í því að fyrir rest, eins og sagt er, eru málin afgreidd í samræmi við innihald og í samræmi við þann tíma sem eðlilegt er að þau taki að allra manna dómi. Það er ekki hægt að segja sem svo að þessi 120 eða 140 tímar í fyrra hafi verið á nokkurn máta eðlileg málsmeðferð á einu þingmáli. Ég skora bara á hv. þingmann og hans meðflokksmenn að sýna þessa ábyrgð í verki. Þetta er jú þannig að þetta er lögbundin samgönguáætlun sem á að afgreiða og svo eru tvö frumvörp hér sem við eigum eftir að ræða í þokkabót. Ef það er sami takturinn vitum við alveg hvað þetta þýðir. Það er verið að skemma fyrir því að þessi mál komist á þá leið sem þau eiga skilið. Þess vegna vil ég einfaldlega spyrja: Eftir hverju eru Miðflokksmenn að bíða? Skilja þeir ekki kall tímans þegar kemur að þessum innviðum? Við erum búin að eyða gríðarlegum tíma í að ræða fyrri samgönguáætlun. Það er búið að endurskoða þá samgönguáætlun. Það er búið að taka inn í hana nýjungarnar og vissulega þarf að ræða þær. En það hefur líka sín tímamörk.

Ég spyr bara einföldu spurningarinnar: Hvernig á þessi umræða sem eftir er, ef Miðflokkurinn heldur þessu áfram, að rúmast innan þeirra þingdaga og þeirra umræðutíma sem við höfum hér fram að þinghléi?