150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að fara betur yfir samgönguáætlunina, en sný mér nú að kaflanum um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins vegna fyrri ræðu minnar hér í dag og andsvara. Ég tel það auðvitað alltaf þakkarvert að fá tækifæri til að ræða borgarlínuna og ég er ekkert feiminn við að ræða hana, og vegna hvers? Vegna þess að þar er um miklar fjárhæðir að ræða fyrir ríki og sveitarfélög og almenning, ef kemur til þess að þarna eigi að innheimta flýtigjöld og umferðargjöld, þannig að ég fagna hverju tækifæri til að ræða betur um borgarlínuna, enda hefur mikið og margt nýtt komið fram um hana síðustu tvo, þrjá dagana og margir spurt spurninga, ekki bara hér á þingi heldur úti í samfélaginu. Það sést nú bara á samfélagsmiðlum og í greinaskrifum í blöðum. Ég tel því að þetta sé mjög tímabær umræða.

Af hverju segi ég þetta, herra forseti? Af því að hingað til hefur umræðan um borgarlínu verið mjög einhliða. Hún hefur verið flækt, hún er óskýr, þokukennd og hefur einkennst af fallegum draumsýnum og slegið er úr og í hvað hún muni kosta. Menn hafa lengi vel ekki verið með á hreinu hvers konar vagna ætti að nota til dæmis, hvar þeir ættu að liggja, hvernig borgarlínan myndi þrengja að annarri umferð og margt, margt annað.

Eins og umferðarverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason heldur fram, herra forseti, í nýlegri og ítarlegri grein sinni í Kjarnanum, þá hefur framsetning á málinu af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík verið fremur í ætt við áróður en ítarlegar og faglegar unnar greinargerðir um málið. Þannig hefur framsetningin verið að sögn umferðarverkfræðingsins. Hann rökstyður það í grein sinni. Það sem ég held að verkfræðingurinn sé að segja okkur er að það sé enn verið að selja okkur höfuðborgarbúum og þjóðinni þessa hugmynd og vinna henni fylgi með fallegum framtíðarmyndum um hvernig þetta muni verða þegar flestallir borgarbúar munu ferðast hér um í hraðvögnum.

Ég held að nær væri að umbúðirnar væru teknar af þessari borgarlínu og við fengjum að sjá innihaldið eins og það lítur raunverulega út; hvar fyrirhugað sé að hún liggi, að hvaða umferð hún muni þrengja, hvernig fari fyrir umferðarstíflum, sem nú eru, þegar þrengja mun að þeim enn frekar. Hvað verður um umferðarstíflurnar þá? Munu þær hverfa og allir bílstjórar stökkva upp í léttvagna borgarlínu? — Eða voru það liðvagnar? Eða voru það hraðvagnar, eða hvernig svo sem endanlega útfærslan átti að vera? Munu umferðarhnútarnir hverfa við að vagnar borgarlínu taki eina akrein á helstu umferðaræðunum? Hver verður rekstrarkostnaðurinn? Hver verður notkunin, herra forseti? Mun hún aukast eins og stefnt var að með samningunum um framkvæmdastopp árið 2011 þegar milljarður var settur í, árlega, til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu? Og nú, níu árum síðar er komið í ljós að enginn árangur eða næsta lítill var af þeirri tilraun.

En blekkingaleikurinn heldur áfram, herra forseti. Það á að halda áfram að dæla fjármagni í draumaverksmiðju borgarstjórnarmeirihlutans og umbúðirnar eru svo fallegar að fjöldi fólks í stjórnkerfi, bæði ríkis og nágrannasveitarfélaganna, og almenningur, hefur nú þegar látið blekkjast. Eða kannski er það fremur það að þetta fólk sé reiðubúið til að greiða hátt gjald til að losna úr prísundinni sem það hefur upplifað sig í undanfarinn áratug og lengur með framkvæmdastoppinu, sé tilbúið til að greiða hátt lausnargjald til að losna úr herkvínni sem það og aðrir höfuðborgarbúar hafa upplifað sig í meðan á þessu framkvæmdastoppi hefur staðið. Fyrir lausnargjaldið sér það fram á að langþráðar og löngu tímabærar framkvæmdir við stofnbrautir og mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu fari loks af stað. Eðli lausnargjalda er einfalt, herra forseti. Því dýrmætara í huga þess sem reiða á fram lausnargjaldið, þ.e. sem leysa á úr herkví þess sem hefur það dýrmæta í hendi sér og það er einnig ákveðinn og verðmætur kostur að viðkomandi hafi fulla vitneskju (Forseti hringir.) um þetta dýrmæti, þeim mun hærra lausnargjald er unnt að krefjast og viljinn til að greiða er í þessum tilvikum oft mikill. (Forseti hringir.) Þetta er alþekkt, herra forseti, í gíslatökumálum.