150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, sem var nú kannski ekki andsvar. Mér detta í hug þau orð hv. þingmanns fyrr í dag að við værum að halda sömu ræðurnar aftur og aftur. Mér sýnist ræða hv. þingmanns núna vera endurtekning á andsvari hans við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, nema hann breytti orðinu Norðausturkjördæmi í Suðurkjördæmi. Ég held að þetta hafi bara verið sama ræðan.

Af hverju hef ég áhuga á borgarlínu? Af hverju ræði ég borgarlínu? Það er auðvitað vegna þess fjármagns sem áætlað er að verja í borgarlínu, milljörðum, milljarðatugum úr ríkissjóði, og það kemur að vitaskuld niður á öðrum framkvæmdum. Við notum ekki sama peninginn tvisvar. Og fyrst hv. þingmaður minnist á Suðurkjördæmi þá er það fé sem er að hluta til ekki nógu vel varið í svona óljósar framkvæmdir eins og borgarlínan er. Ég tel að því fé væri einmitt betur varið í framkvæmdir í Suðurkjördæmi. Í fyrstu ræðum mínum um samgönguáætlun ræddi ég ítarlega um framkvæmdir á öllu landinu og þar á meðal í Suðurkjördæmi. Það er því misskilningur hjá hv. þingmanni að ég eigi eingöngu að halda ræður um Suðurkjördæmi. Ég hef áhuga á öllum framkvæmdum. Ég hef áhuga á fjármagni sem við erum að veita til framkvæmda. Ég hef áhuga á forgangsröðun framkvæmda og að sjálfsögðu á borgarlínu líka vegna þess að í hana er stór hluti af fjármagninu settur.