150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann fór mikinn. Hann leiðbeindi mér um að ég ætti að vera í jafnvægi þegar ég læsi ræður mínar yfir. Ég held að hann ætti frekar að gæta að sínu jafnvægi en ég að mínu. Hann fór mikinn og hv. þingmenn, sérstaklega Vinstri grænna, hafa talað á þann veg, eins og hv. þingmaður sagði, að skilningur Miðflokksmanna, ef ég tók rétt eftir, á framkvæmdum væri enginn. (Gripið fram í: Greinilega ekki.) Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson sagði í ræðu, og átti þá við Miðflokksmenn ef ég skildi rétt, að við skildum ekki kall tímans. Ef þið eruð handhafar sannleikans, hv. þingmenn, væri kannski ágætt að þið kæmuð hérna með hann en kæmuð ekki upp í pontu (Gripið fram í.)og hreyttuð út úr ykkur staðhæfingum um vanmátt annarra. Komið bara með sannleikann. Ef þið eruð handhafar sannleikans, komið þá með hann. Ég held að höfuðborgarbúar bíði eftir því að fá sannleikann um borgarlínuna. (Gripið fram í.)Við erum hér í pontu til að upplýsa borgarbúa um hana.

Eins og umferðarverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason gerir ítarlega grein fyrir í nýlegri grein sinni í Kjarnanum hefur framsetning borgarlínu fremur verið í ætt við áróður en upplýsingu. Ég held að hv. þingmaður, þegar hann er búinn að ná sér niður, ætti að lesa þessa ágætu grein Þórarins Hjaltasonar í Kjarnanum.