150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða samgönguáætlun og er af mörgu að taka, að sjálfsögðu. Það er einhver smámisskilningur á ferðinni, heyrist mér, í umræðunum, að engin samgönguáætlun sé í gildi. Það er að sjálfsögðu í gildi samgönguáætlun. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að við séum verkefnalaus. En vissulega eru breytingar sem þarf að ræða.

Ein stærsta breytingin á þeirri samgönguáætlun sem við ræðum nú snýr einmitt að þessum svokallaða samgöngusáttmála og þessari borgarlínu, sem virðist einhvern veginn eiga að þagga í hel hér í þingsalnum. Meira að segja í nefndaráliti meiri hlutans er sérstakur kafli um borgarlínu og samgöngusáttmálann. Þar af leiðandi er ósköp eðlilegt að þetta sé rætt mjög ítarlega hér. Það er töluvert mikil hætta á því að þetta verkefni muni, vegna þess að við höfum ekki fengið neinar haldbærar upplýsingar um endanlegan kostnað og slíkt, soga til sín stóran hluta af fjárframlögum ríkisins til samgöngumála á næstu árum. Þá er ég að tala almennt um samgöngumál og allt sem undir þeim hatti er því að við vitum það öll að á næstu árum verða takmarkaðir fjármunir í ríkissjóði til framkvæmda á vegum ríkisins vegna tekjutapsins og hallans sem er nú á sjóðnum vegna faraldursins sem herjar á okkur.

Það er með ólíkindum að heyra þetta mjálm í hv. þingmönnum stjórnarflokkanna um að ekki megi tala um hitt og þetta á sama tíma og þeir koma hingað upp og tala niður til annarra þingmanna sem vilja tala um málin sem þeim finnst svo óþægileg. Og ég fagna því ef menn úr stjórnarliðinu ætla að halda áfram að opinbera sig með þeim hætti.

Það er annað sem maður hefur ekki heyrt stjórnarliðana tala um í þessum ræðustóli, sérstaklega þá sem tilheyra flokkunum sem nú eru í borgarstjórn. Ég vona svo sannarlega að breyting verði á, að þeir komi hingað upp og útskýri fyrir okkur hvað þeir eru að hugsa með flugvöllinn í Reykjavík. Að okkar mati á að vera alveg skýrt að þessi flugvöllur er ekkert að fara, en borgarstjórnarflokkarnir sem eru nokkuð ráðandi í þinginu hafa aðrar hugmyndir. Það væri gott að heyra í þeim varðandi þann hluta. Kaflinn í áliti meiri hlutans um það allt saman er frekar rýr, innihaldið í það minnsta.

Mig langaði líka að nefna að í umsögn Viðskiptaráðs um samgönguáætlun koma fram töluverðar áhyggjur af því að í raun sé verið að draga úr heildarfjármagni til samgöngumála. Mikilvægt er að horfa á það raunsæjum augum. Ef það er rétt, miðað við hagvöxt og þær forsendur sem eru gefnar í umsögninni, verðum við vitanlega að horfa raunsætt á málin og viðurkenna að útlit er fyrir að það dragist saman þótt við séum að spýta aðeins í núna. Það er mikilvægt að skoða það í samræmi við samgönguáætlunina. Ég á svo sem enn þá eftir að finna þess stað í nefndaráliti meiri hlutans að tekið hafi verið tillit til þess. Það kann þó að leynast þar þótt ég hafi ekki fundið það, en það er eitthvað sem ég mun reyna að leita að.

Það er sérstakt þingmál um þessi svokölluðu samvinnumál hér í þingsal, herra forseti. Það vill þannig til að líka er talað um þau í nefndaráliti meiri hlutans. Það getur því varla verið bannað að ræða þessi samvinnuverkefni þótt það sé óþægilegt fyrir meiri hlutann. Ég ætla að leyfa mér að stíga aðeins inn í það og ræða það. Ég vona bara að meiri hlutinn og hæstv. forseti fyrirgefi mér ef það brýtur einhverjar reglur meiri hlutans. Ég hef bent á það fyrr og ekki fengið nein svör. Ég vona þá að einhver komi í andsvar og svari því sem ég ætla að velta upp. Á bls. 17 í nefndaráliti meiri hlutans er talað um þessi samvinnuverkefni. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Enn fremur er mikilvægt að vegalög séu skýr um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga við samgönguframkvæmdir í þéttbýli þannig að kostnaðarskipting framkvæmda sem falla undir sáttmálann sé ljós samkvæmt lögunum. Hvetur nefndin til þess að lögin verði yfirfarin með tilliti til þessa.“

Nú spyr ég: Er þetta óljóst? Af álitinu að dæma er þetta óljóst. Því er ósköp eðlilegt að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum vilja menn ekki fara í að skýra það áður en haldið er áfram með mál sem er svo stórt og fjárfrekt og mun kosta svo mikið? Er það rangt hjá mér að þetta sé fjárfrekt verkefni? Er það rangt hjá mér að einhver óvissa sé uppi um endanlegan kostnað? Er það rangt hjá mér að óvissa sé um kostnaðarskiptinguna þegar upp verður staðið? Ef það er rangt hjá mér veit ég ekki af hverju þessi kafli er í nefndaráliti meiri hlutans. Það er í það minnsta ljóst að meiri hlutinn telur ástæðu til að skoða þessi lög (Forseti hringir.) þannig að þetta sé algerlega skýrt. Þar af leiðandi má álykta sem svo að þetta sé ekki skýrt.