150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit vel hvað hv. þingmaður sagði um samgönguáætlun og fyrri samgönguáætlun. Ég var að vísa til orða sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson lét falla og það getur vel verið að hv. þingmaður hafi ekki verið hér í salnum en það var hér rétt á undan. Fyrir mér kristallaðist í þeim orðum nákvæmlega kæruleysið sem þessi tafapólitík sem hér er stunduð er eiginlega fulltrúi fyrir vegna þess að talað hefur verið um að menn skilji ekki hvað þeir eru að gera með því að tefja hér allt of mikið. Ég er ekki endilega á móti vönduðum umræðum eða því sem menn geta kallað hóflegt málþóf. Allir hafa stundað það og það er réttur stjórnarandstöðunnar að beita því að einhverju leyti. En kall tímans er þetta: Hvað eigum við að gera á fimmtudag? Ætlar Miðflokkurinn að bera ábyrgð á því að við verðum í viku eða tvær eða þrjár í viðbót? Ég er margbúinn að spyrja en fæ aldrei svör við því.

Ég er spurður um höfuðborgarsáttmálann. Ég hef í sjálfu sér ekki tekið þátt í þeim undirbúningi en ég veit að grófa skiptingin á þeim 110–120 milljörðum sem eru þarna er til. Síðan er það akkúrat hlutverk þess félags sem verið er að stofna, og hv. Miðflokksmenn eru raunverulega að tefja með sínum málflutningi, að fara út í nákvæma kostnaðarskiptingu, skiptingu á tapi o.s.frv. Til þess er þetta gert. Ríkið (Forseti hringir.) er að taka þarna að sér (Forseti hringir.) hlutverk í innviðaáætlun og öðru slíku, því að stór (Forseti hringir.) hluti af þessu eru jú stofnbrautir, jarðgöng og annað slíkt.