150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að koma í ræðu minni að uppbyggingu varaflugvallakerfisins á Íslandi, en ég verð þó að byrja á því að bregðast við því sem hv. þingmenn Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ari Trausti Guðmundsson hafa sagt hér. Þeir hafa verið að gagnrýna málflutning okkar Miðflokksmanna, við séum að tefja samgönguáætlun, tefja framkvæmdir og viðhafa kæruleysislega pólitík eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson orðaði það í andsvari sínu. Ég vil bara mótmæla þessu, herra forseti. Hér liggur fyrir samgönguáætlun upp á marga milljarða króna. Þetta er þriðji dagurinn sem við erum að ræða þetta mál og ég sé ekkert athugavert við að fara vandlega yfir það. Auk þess höfum við lýst því yfir að við erum andsnúnir þessu borgarlínuverkefni sem kostar tugi milljarða króna. Er það ekki lýðræðislegur réttur og réttur þingmanna að fá að tjá sig um svoleiðis verkefni sem kosta þessar gríðarlegu upphæðir? Á sama tíma stefnir í methalla á ríkissjóði, við horfum fram á að það þurfi að skera niður í næstu fjárlögum, hagræða o.s.frv., og hér er verið að ræða gríðarleg útgjöld fyrir ríkissjóð.

Ég segi það enn og aftur: Það er fullkomlega eðlilegt að gefa sér góðan tíma í að ræða þessi mál. Ég hef í fyrri ræðum mínum bent á áherslur í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, sem ég tel mikilvægt að koma á framfæri í þessari umræðu og ég tel mig hafa verið mjög málefnalegan í því. Svo kemur þingmaður eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé og heldur háværar ræður og ýjar að því að Miðflokkurinn sé að setja hér allt í gíslingu, samgönguáætlun, framkvæmdir o.s.frv. Ég vísa þessum ummælum hv. þingmanns, herra forseti, til föðurhúsanna.

Ég er alveg sannfærður um að ef hann tæki nú alvarlega eitthvað af þeim málefnum sem hann hefur verið að ræða þá myndi hann kannski gefa sér sjálfur tíma í það að fara vandlega yfir ýmsar áherslur sem koma fram í samgönguáætlun. Það er bara skylda okkar þingmanna. Það er skylda okkar, herra forseti, að vekja athygli á ýmsum málefnum í okkar kjördæmi þegar kemur að samgönguáætlun og það hef ég gert og við í Miðflokknum höfum gert það. Við höfum lagt sérstaka áherslu á þetta borgarlínuverkefni vegna þess að það er margt óskýrt í því sem kostar gríðarlegar fjárhæðir, 50 milljarðar króna úr ríkissjóði, bara í borgarlínu, sem menn vita ekki nákvæmlega hvernig kemur til með að nýtast, hversu margir farþegar koma til með að nýta hana og hvort þetta sé skynsamlegt út frá því sjónarhorni. Nei, það á bara að afgreiða þetta strax, helst bara á einum degi. Samþykkja hérna útgjöld úr ríkissjóði upp á 50 milljarða, helst á einum degi án nokkurrar umræðu. Allir pirraðir og vilja bara koma sér heim og ríkisstjórnarflokkarnir vilja komast í sumarfrí og við eigum bara að hætta þessu strax og skrifa upp á tékka fyrir ríkissjóð upp á tugi milljarða króna eins og ekkert sé. Það er ekki hægt að greiða fyrir svona undarlegum áherslum ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum.

Ég segi það enn og aftur, forseti: Það er ekkert óeðlilegt við það að við Miðflokksmenn stöndum hér í ræðustól og förum yfir þessi mál vandlega því það er skylda okkar. Það er ósköp einfaldlega skylda okkar, sérstaklega þegar um svo miklar fjárhæðir er að ræða sem á að greiða úr ríkissjóði.

Ég sé að tíminn er langt kominn, ég ætlaði að ræða um varaflugvelli en ég gat ekki annað en komið hingað upp og mótmælt málflutningi þeirra þingmanna sem hafa komið hér upp og gagnrýnt okkur Miðflokksmenn fyrir að taka málefnalega afstöðu gagnvart ýmsum þáttum í samgönguáætlun sem kostar verulega peninga. Það er ekki verið að tefja nein verkefni. Það er búið að samþykkja sérstakt fjárfestingarátak. Það eru framkvæmdir komnar í gagnið sem hægt er að fara í á þessu ári þannig að þetta er bara algjör útúrsnúningur hv. þingmanna að við séum að tefja. Og að kalla það kæruleysispólitík þegar maður fer málefnalega yfir samgönguáætlun lið fyrir lið, ýmis verkefni í kjördæminu, er náttúrlega alveg með ólíkindum. Þeir þingmenn sem vilja láta taka sig alvarlega eiga ekki að viðhafa svona málflutning.