150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Vegna orða sem hér hafa fallið vil ég árétta það að við þingmenn Miðflokksins höfum fjallað með málefnalegum hætti um þetta mál eins og okkur er tamt almennt að fjalla um mál. Og ef ég má leyfa mér að tala hér sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, þingmaður Reykvíkinga náttúrlega en um leið þingmaður allra landsmanna, vil ég segja að stærsta einstaka verkefnið sem við blasir í samgöngumálum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu er náttúrlega þessi borgarlína. Það er ekkert hægt að komast hjá því, herra forseti, að ræða hana. Gert er ráð fyrir því að þetta verkefni sé sett efst á forgangslista. Það hefur greinilega verið ákveðið í borgarstjórn Reykjavíkur og af einhverjum ástæðum tekur Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu að sér, sem fer með ríkisfjármálin, að fjármagna það verkefni sem allir vita að er kosningamál fyrir meirihlutaflokkana og sérstaklega forystuflokkinn í borgarstjórn, Samfylkinguna. Það er útilokað annað en að um þetta mál sé vel, rækilega og ítarlega fjallað, þó ekki væri nema fyrir það hversu málið er stórt og fjárfrekt, og reyndar umdeilt.

Ég ætla bara að segja það hér til áréttingar að það hefur ekki nokkur maður úr þingliði Miðflokksins mælt gegn almenningssamgöngum. Margir þingmenn í okkar þingliði þekkja vel til almenningssamgangna. Sumir hafa búið til lengri eða skemmri tíma erlendis og þekkja almenningssamgöngur þar og auðvitað hér á Íslandi.

Spurningin sem þetta mál snýst um í aðalatriðum er þessi: Er verjandi að setja 50 milljarða af ríkisfé í þetta verkefni eins og lagt er upp með? Þó að hér sé samgönguáætlun til umræðu þá liggur fyrir frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags, herra forseti, og þar er rakið í einstökum atriðum fjármögnun þessa verkefnis og þar kemur fram þessi tala, 49,6 milljarðar í borgarlínu. Þess vegna námunda ég og segi 50 milljarðar. En þar er líka gert ráð fyrir að í þessa hít verði mokað dýrmætasta byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu og kannski á landinu öllu, en það er Keldnalandið.

Herra forseti. 50 milljarðar er ekki lítið fé. Það stendur þannig á að þessari framkvæmd hefur verið andmælt með rökum af kunnáttufólki. Hér hefur nokkrum sinnum verið vitnað til greinar eftir umferðarverkfræðing sem birtist fyrir rúmu ári á vefritinu Kjarnanum og er eftir Þórarin Hjaltason, sem hefur bæði menntun á sviði verkfræði og rekstrarfræða. Þessi höfundur, þessi fræðimaður, rökstyður þá niðurstöðu sína að ekki þurfi að verja nema nokkrum milljörðum til þess verkefnis að bæta almenningssamgöngur, til að ljúka gerð sérakreinar fyrir strætó á höfuðborgarsvæðinu, eins og hann kemst að orði. Hann segir, og ég ætla að leyfa mér að taka beint upp úr tilvitnaðri grein umferðarverkfræðingsins, með leyfi forseta:

„Þannig má spara nokkra tugi milljarða, án þess að það komi niður að ráði á þjónustu strætó.“

Herra forseti. Fram hjá þessu verður ekki litið. Hvar eru fylgismenn þessa máls? Af hverju koma þeir ekki hér og ræða þetta við okkur? Af hverju eru þeir ófáanlegir til þess að ræða það að þetta þurfi ekki að kosta nema nokkra milljarða á móti þeim tugum milljarða sem á að setja í þetta? Af hverju eru þeir ófáanlegir til að ræða kostnaðaráætlanir, arðsemismat, frávikshættu varðandi kostnað eða rekstraráætlun eftir að (Forseti hringir.) þessu verkefni er lokið, sem fram hefur komið að sé ekki fyrir hendi? (Forseti hringir.) Af hverju fást þessir hv. þingmenn, sem eru t.d. í flokkum sem mynda meiri hlutann í Reykjavík, ekki til að ræða þetta mál?