150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að snúa mér að Reykjavíkurflugvelli, hverfa frá borgarlínu og að Reykjavíkurflugvelli. Það er ekki svo langsótt tenging því að borgarlínan liggur að Reykjavíkurflugvelli bókstaflega. En hins vegar stenst ég ekki mátið, eða finnst það eiginlega vera skylda mín, eftir að hinn glaðværi hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom hér upp áðan og hafði, að því er virtist, eitthvað misskilið umræðu um skosku leiðina og innanlandsflugið, að útskýra það mál aðeins áður en lengra er haldið. Það var annar hv. þingmaður stjórnarliðsins og raunar einnig Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem vakti einmitt máls á því hversu óljóst það væri enn hvað menn ætluðu sér með skosku leiðinni. Það virðist vera ólíkur skilningur á því hvað felst í þessari leið sem kennd er við nágrannaland okkar.

Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir benti á að í Skotlandi næði þessi leið eingöngu til jaðarbyggðanna og ég rakti það hvaða byggðir er þarna um að ræða. Það eru fjarlægar eyjar og ystu annes Skotlands, í mörgum tilvikum byggðarlög þar sem íbúarnir nema ekki þúsundum heldur hundruðum og eru jafnvel rétt rúmlega 100 íbúar í einu eða tveimur tilvikum. Og þetta vekur þá spurningu sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir varpaði hér fram mjög skynsamlega: Ætlar íslenska ríkisstjórnin að innleiða skosku leiðina á sömu forsendum og hún er framkvæmd í Skotlandi og veita þá einungis stuðning til fólks sem býr í mjög litlum og fjarlægum byggðarlögum, segjum t.d. í Grímsey? Eða ætlar ríkisstjórnin að innleiða þessa leið sem átak í því að styðja við innanlandsflug sem almenningssamgöngur og styðja við innanlandsflug til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar o.s.frv.?

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson lýsti skoðun sinni á þessu og það er rétt sem hann segir að talað hefur verið um ákveðin viðmið þarna. En það er einmitt vandinn. Það hefur verið talað um þetta sem viðmið og maður hefði viljað að í samgönguáætlun til fimm og 15 ára birtist með skýrari hætti hvernig ríkisstjórnin hyggst útfæra þessa skosku leið og í því væri þá fólgin einhver skuldbinding. Við höfum séð það gerast allt of oft að yfirlýsingar hafa komið um hvað menn ætla sér eða myndu vilja sjá í samgöngumálum, ekki síst varðandi innanlandsflugið, en svo hefur orðið lítið um efndir. Meira að segja núna í þessu Covid-ástandi koma miklar yfirlýsingar um átak í innanlandsflugi og er Akureyrarflugvöllur sérstaklega nefndur og Egilsstaðaflugvöllur ekki síður. En þegar til kastanna kom og kynnt voru fjárfestingaráform ríkisstjórnarinnar vegna þessa ástands var sáralítið sett í þetta. Breytingartillögum okkar Miðflokksmanna, um að bæta þarna í og hjálpa ríkisstjórninni að standa við yfirlýsingarnar, var öllum hafnað af ríkisstjórninni.

Yfirlýsingar í samgöngumálum, innanlandsfluginu, eru eitt en gerðir allt annað. Sú hefur reynst vera raunin. Því myndi maður í tengslum við samgönguáætlun vilja sjá meiri skuldbindingu af hálfu stjórnvalda hvað þetta varðar. Sérstaklega er þetta óljóst varðandi innanlandsflugið og vísbendingarnar í áætluninni frekar í þá átt að þar sé verið að hugsa um að draga saman og jafnvel draga úr þjónustu frekar en hitt. (Forseti hringir.)

Eina ferðina enn er tíminn búinn og ég bið virðulegan forseta um að setja mig á mælendaskrá.