150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að við ræðum þessar samgönguáætlanir í þaula vegna þess að hér er um að ræða mikil fjárútlát úr ríkissjóði og peningar verða jafnvel sóttir í vasa almennings. Fyrir utan þá skatta sem almenningur greiðir verða peningar væntanlega sóttir í vasa skattgreiðenda ef menn taka upp gjaldtöku á vegum og/eða breyta álögum á einkabílinn.

Mig langar að ræða hér aðeins annað, herra forseti. Ég tel að það sé varla hægt að finna í langan tíma jafn slæma fjárfestingu af hálfu ríkisins og þá peninga sem hafa farið til þess að bæta almenningssamgöngur, eins og það er kallað. En til þess verkefnis hefur verið varið 1 milljarði kr. á hverju ári, væntanlega bráðum í níu ár. Í upphafi, þegar þessi ákvörðun var tekin, kom fram í könnunum að um 4% íbúa notuðu almenningssamgöngur. Menn væntu þess á þeim tíma að þessi milljarður á ári myndi breyta því hlutfalli nokkuð en reyndin er allt önnur. Samkvæmt því sem segir í skýrslu Mannvits, sem unnin var fyrir Strætó, kemur í ljós að það eru enn 4% sem nýta sér almenningssamgöngur. Ég kannast ekki við, og forseti leiðréttir mig þá, að hafa séð skýrslu sem getur þess hver árangurinn sé af þessum fjáraustri, þ.e. milljarði á ári allan þennan tíma. Ég held að það væri fróðlegt að fá slíka skýrslu fram og fá þá fram líka í hvað þessir peningar fóru. Sem manni sem horfir utan frá kannast ég ekki við að gerðar hafi verið þær breytingar á leiðakerfi strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu að það taki skemmri tíma að nýta sér þessa þjónustu til og frá vinnu. Hafi einhver slík könnun verið gerð þætti mér vænt um að ég yrði leiðréttur og hún yrði dregin fram. Ég kannast heldur ekki við að það hafi verið gert meira aðlaðandi að taka strætó með einhverjum sérstökum ívilnunum. Fargjöld hafa ekki verið lækkuð að marki en það hefði kannski verið tilraunarinnar virði á sínum tíma ef við hefðum ætlað af einhverri alvöru að efla almenningssamgöngur.

Nú eru uppi áætlanir um að leggja stórfé í almenningssamgöngur og Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera reiðubúinn til þess að ánafna 50 milljörðum kr. í eitthvert apparat sem hann veit ekki hvað er, alla vega veit formaður flokksins ekki hvað það er. Engu að síður er hann tilbúinn að opna pyngju landsmanna og láta þaðan renna 50 milljarða verkefni í almenningssamgöngur sem formaður flokksins veit ekki hvað er. Ég hefði talið, herra forseti, að full ástæða væri til þess að menn stöldruðu við og gerðu sér miklu betur grein fyrir hvað breyttist á þeim níu árum sem einn milljarður á ári rann til almenningssamgangna; í hvað þeir peningar fóru; í hvað þeir voru notaðir. Nýttust þeir til að auka hlutdeild almenningssamgangna? Það held ég ekki.

(Forseti hringir.) Ég sé því miður að tími minn er liðinn og bið því hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.