150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var að kalla eftir ákveðnum upplýsingum áðan frá meiri hlutanum sem ekki komu fram. Ég bíð bara rólegur eftir því að þær komi, þetta hlýtur allt að skila sér á endanum. Meiri hlutinn fer ítarlega í gegnum ályktanirnar og tengd frumvörp sem birtist hér í nokkrum köflum, m.a. um samgöngusáttmála og þessi svokölluðu samvinnuverkefni, PPP-verkefni sem svo eru kölluð í nefndarálitinu. Það er svo sem sérstök umræða um gagnsemi slíkra verkefna en meiri hlutinn bendir á að þetta sé leið til að flýta framkvæmdum og eflaust má færa rök fyrir því.

Eins og nefnt hefur verið, m.a. af þeim forseta sem nú situr í stólnum, hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda bent á að slíkar framkvæmdir reynist yfirleitt heldur dýrari en framkvæmdir sem ríkissjóður greiðir sjálfur, enda má búist við því að aðgengi ríkissjóðs að fjármagni sé ódýrara og betra en margra annarra. Við höfum líka séð það að víða, t.d. í Noregi, hafa menn verið að mótmæla því töluvert að farin sé þessi leið.

Flugvellir landsins skipta miklu máli í samgöngum og skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli að þeir séu þannig uppbyggðir að hægt sé að nota þá. Á það hefur verulega skort, og reyndar hefur flug lagst af á stöðum þar sem töluverð uppbygging hefur verið. Það hefur að sjálfsögðu verið af ýmsum ástæðum en ein af ástæðunum er að það er dýrt að halda úti áætlun og þyrfti ríkissjóður að koma meira inn í slíkt en hér er gert ráð fyrir. Flugvellir eru á fjölmörgum stöðum í kringum landið og þeir skipta máli þegar kemur að sjúkraflutningum og öðru slíku. Það er mikilvægt að horfa á nauðsyn og þörf fyrir þá út frá því. Okkar frábæra Landhelgisgæsla sinnir líka sjúkraflugi með þeim búnaði sem hún hefur, m.a. með þyrlum. Nýverið sáum við mikilvægi þess að sú starfsemi sé örugg og skorti ekki fjárveitingar. Á bls. 20 í nefndarálitinu er rætt um fjármögnun framkvæmda við flugvelli og er það jákvætt að verið sé að bæta í á ákveðnum stöðum. Þetta eru ekki miklir fjármunir þegar upp er staðið því að þetta kostar vitanlega mjög mikið.

Annað sem ég mun koma að síðar er þessi hafnakafli. Það sem maður hefur vitanlega áhyggjur af — og ég mun segja það í hverri einustu ræðu sem ég mun flytja í þessu máli og tengdum málum, herra forseti — er að verið sé að setja ríkissjóð í þá stöðu að hafa um fátt annað að velja en að opna budduna. Ef samgöngusáttmálinn og öll þessi samvinnuverkefni og öll þessi jafna sem hér hefur verið búin til gengur upp er verið að binda fjármuni ríkissjóðs til langrar framtíðar. Það mun koma niður á öðrum verkefnum ef, og nú segi ég ef vegna þess að það hefur ekki verið upplýst að svo sé ekki, ekki er búið að girða fyrir sjálfkrafa útflæði fjármuna úr ríkissjóði fari verkefni t.d. fram úr áætlun.