150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef ekki tjáð mig mikið um borgarlínuna sem sumir þingmenn, stjórnarliðar, hafa verið að kvarta yfir að sé verið að eyða miklum tíma í hér í okkar umræðu, sem er reyndar sannarlega þörf á. Ég hef nýtt þennan tíma til að ræða helstu áherslumál sem lúta að mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, og hef þar farið yfir Reykjanesbrautina, flugvallarmálin, minni flugvelli á Suðurlandi, Ölfusárbrúna, tengivegi í uppsveitum og fleiri mikilvæg verkefni. Það er einmitt hlutverk okkar þingmanna, þegar við ræðum samgönguáætlun, að vekja athygli á hinum ýmsu brýnu samgönguframkvæmdum sem ráðast þarf í.

Þess vegna segi ég það enn og aftur, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að ég skil ekki þingmenn sem koma hingað upp, þingmenn stjórnarliðsins og þá sérstaklega þingmenn Vinstri grænna, og halda því fram að við séum að tefja þessa umræðu um samgönguáætlun. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson sagði að hér væru Miðflokksmenn að stunda kæruleysislega tafapólitík. Það er náttúrlega fáránlegur málflutningur frá þingmanni sem vill láta taka sig alvarlega að halda því fram að þegar maður er að tala um mikilvægar samgöngubætur í öllum landshlutum sé maður að tefja málið. Ég held að þeir sem heima sitja og eru að hlusta, og landsmenn allir, átti sig á því að slíkur málflutningur er ekki svaraverður. Það er skylda okkar að vekja athygli á þessum mikilvægu málum og þakka fyrir það sem vel er gert og það höfum við líka gert.

Gerðar hafa verið mikilvægar breytingar á þessari samgönguáætlun sem skipta miklu máli. Ég nefni sem dæmi Reykjanesbrautina. Það hillir vonandi loks undir að tvöföldun Reykjanesbrautar ljúki alveg. Eftir er kafli frá Lónakoti í Hvassahrauni að Krýsuvíkurafleggjara og verður þeim framkvæmdum vonandi lokið 2023. Það er búið að gera góða hluti en það er líka margt annað sem þarf að gera og er nauðsynlegt að vekja athygli á því. Það höfum við Miðflokksmenn svo sannarlega verið að gera hér. Við höfum bent á ýmsar framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í. Menn geta ekki verið að pirra sig yfir því að við förum ítarlega yfir þessa áætlun. Hér eru þingmenn sem hafa ekki sagt eitt einasta orð um þessa samgönguáætlun og þetta er eitt af stærstu verkefnum þessa þings, fyrir utan það að við lentum í því að fara í ýmsar aðgerðir vegna veirufaraldursins.

Samgönguáætlun er eitt af stóru málunum. Gríðarlegir fjármunir eru settir í hana, tugir milljarða, og að sjálfsögðu er það skylda allra þingmanna að taka þátt í umræðunni og tjá sig um málið, tjá sig um það sem betur má fara og koma með tillögur. Það höfum við verið að gera í málflutningi okkar og ég held að almenningur átti sig alveg á því að umræðan er nauðsynleg og hún er mikilvæg. Ég held að það séu fáir sem taka undir þau ummæli sem hafa fallið hér af hálfu stjórnarþingmanna um að við séum að taka allt í gíslingu með því að ræða samgönguáætlun.

Ég segi fyrir mitt leyti að það er algerlega nauðsynlegt að ræða þetta enn frekar. Ég sé ekki eftir þeim tíma sem hefur farið í það og ég sá ekki eftir þeim tíma sem við eyddum í að ræða þetta á síðasta fundi sem stóð til að verða hálffjögur um nóttina. Við erum að nýta tímann vel þar til kemur að þinglokum. Það er ekkert athugavert við að við gerum það. Það eru margir sem þurfa að sinna vinnu sinni um helgar og á kvöldin og nóttunni, það eru þeir sem vinna vaktavinnu. Þingmönnum er engin vorkunn í mínum huga að eyða góðum tíma í að ræða hér eitt stærsta mál þessa þings þar sem miklir fjármunir eru í húfi.

Ég sé, herra forseti, að tíminn er liðinn. Ég ætlaði að koma (Forseti hringir.) aðeins inn á borgarlínuna en geri það bara í næstu ræðu. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.