150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að í sumum ræðum þingmanna sem fjalla um þetta mál, Miðflokksmanna, sé lögð áhersla á svokallaða borgarlínu. Borgarlína er stærsta einstaka framkvæmdin sem fyrirsjáanleg er á komandi tíð og á að verja til hennar tugum milljarða og ef að líkum lætur miklu meira, vegna þess að það liggur ekkert fyrir um það að þær kostnaðaráætlanir sem lagðar hafa verið fram hér standist betur en aðrar kostnaðaráætlanir, og þá á ég sérstaklega við þær sem ráðist er í af hálfu Reykjavíkurborgar undir stjórn núverandi meiri hluta þar.

Við þá sem spyrja hver stefna Miðflokksins sé í þessu máli vil ég segja: Stefna Miðflokksins er sú að tryggja greiðar og öruggar samgöngur um land allt, á höfuðborgarsvæðinu og hringinn í kringum landið. Spurningin er þess vegna um forgangsröðun. Við erum ekki reiðubúin að samþykkja það að verkefni sem á að hlaupa á tugum milljarða með allsendis óvissu um árangur — til að mynda eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason rakti hér rétt áðan varðandi notkun almennings sem fór úr 4% í rétt liðlega 4% á níu árum þrátt fyrir mikið átak — við erum ekki tilbúin að veita svona gífurlegt fé í þetta verkefni sem tekur og sýgur til sín fé frá öðrum þýðingarmiklum og reyndar bráðnauðsynlegum verkefnum og nefni ég þá að sjálfsögðu, frá sjónarhóli Reykvíkinga og höfuðborgarbúa, Sundabrautina sem hefur verið fleygt út í horn af meiri hlutanum í borgarstjórn.

Herra forseti. Fyrir liggur grein eftir kunnáttumann, verkfræðing sem einnig hefur þekkingu á rekstrarfræði eftir nám sitt. Hann segir í grein sinni sem birtist í Kjarnanum í mars 2019 að dýrasti hluti hraðvagnakerfisins sé sérrými eða sérakreinar fyrir hraðvagna. Það er þetta sérrými eða sérakreinar sem eru dýrastar. Hann segir að gert sé ráð fyrir því að meiri hluti leiðakerfis borgarlínu verði í sérrými. Síðan tekur hann mið af því sem gerist og gengur, sérstaklega í Bandaríkjunum og Kanada, um það að þetta hlutfall sérrýmis sé að jafnaði tiltölulega lágt, sérstaklega í minnstu borgunum, og það hlýtur þá að eiga við um Reykjavík, um höfuðborgarsvæðið. Hann segir að sérakreinar fyrir strætó séu yfirleitt ekki gerðar nema þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum og sé tekið mið af þessu þá kosti ekki nema, ég vitna orðrétt til greinarinnar, með leyfi forseta:

„… nokkra milljarða að ljúka gerð sérakreina fyrir strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þannig má spara nokkra tugi milljarða, án þess að það komi að ráði niður á þjónustu strætós.“

Herra forseti. Hvar eru fulltrúar flokkanna sem mynda meiri hluta í Reykjavík og beita sér sem ákafast fyrir þessari borgarlínu? Hvar er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem ber ábyrgð á ríkisfjármálum og ber ábyrgð á því að ætla að standa fyrir 50 milljörðum í þetta verkefni og henda svo Keldnalandinu ofan í þessa hít? Hvar eru þessir fulltrúar? Af hverju koma þeir ekki hér og skýra það í hverju þetta mál liggur? Af hverju útskýra þeir ekki það að hér sé kostnaðaráætlun sem hald sé í? Af hverju skýra þeir ekki það að hér sé arðsemismat sem byggjandi sé á? Af hverju útskýra þeir ekki það að það sé eitthvert hald í þessum kostnaðaráætlunum? Af hverju svara þeir ekki þessum umferðarverkfræðingi sem með rökstuddum hætti segir að hægt sé að ná þessum árangri með því að verja til þess nokkrum milljörðum en ekki milljarðatugum? Við Miðflokksmenn erum hlynntir almenningssamgöngum en við erum ekki hlynntir því að moka fé ofan í botnlausa hít.