150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þér fyrir að minna mig á fjölda ræðna minna, enda málefnið mjög mikilvægt. Ég minni líka á að hver ræða er einungis fimm mínútur, en ræðurnar eru orðnar 15 eins og hæstv. forseti minntist á. Það er full þörf á því vegna þess að hér er mjög stórt mál undir. Eitt af stærstu málum þingsins er samgönguáætlun og hér eru tugir milljarða lagðir í verkefni sem eru öll mikilvæg að sjálfsögðu og eðlilegt að þingmenn hafi skoðun á því hvernig þeim fjármunum er varið og komi þá inn á það hvað megi betur fara og minni á þau verkefni sem er ekki búið að fara í. Þingmenn hafa allir sínar áherslur og þær snúa náttúrlega oft að kjördæmum þeirra.

Mér finnst líka athyglisvert hve fáir þingmenn, aðrir en þingmenn Miðflokksins, hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ummæli þeirra sem hafa komið hingað og tjáð sig um það að Miðflokkurinn stundi hér einhverja kæruleysislega tafapólitík eru náttúrlega ekki svaraverð. Ég er satt að segja hissa á því að þingmenn, stjórnarliðar, og þá einkum Vinstri græn, kalli það einhverjar tafir og eitthvert kæruleysi að tjá sig um svona mikilvægt mál. Ég er alveg sannfærður um að landsmenn allir og þeir sem heima sitja og fylgjast með vilja auðvitað að þingmenn séu vel vakandi yfir þeim samgöngumálum sem lúta að þeirra svæði sérstaklega.

Ég er sannfærður um að þegar upp er staðið sjá menn að málflutningur Miðflokksins er mikilvægur og fullkomlega eðlilegur og ekki síst í ljósi þess, herra forseti, að nú þarf að forgangsraða í fjármálum ríkisins. Mikill og verulegur halli á ríkissjóði er fram undan, yfir 300 milljarðar vegna verkefna sem tengjast veirufaraldrinum og þess vegna þarf að forgangsraða verkefnunum hér og um það snýst samgönguáætlun, að forgangsraða verkefnum.

Nefndin hefur unnið ágætisstarf í þeim efnum og er það að sjálfsögðu þakkarvert. Síðan kemur málið hingað inn og við 2. umr. er fullkomlega eðlilegt að menn taki sér góðan tíma í að fara vandlega yfir það sem meiri hluti nefndarinnar leggur til í nefndaráliti sínu og þar er ýmislegt sem þarfnast frekari umræðu. Þess vegna höfum við lagt upp með að vanda þessa umræðu og ég er mjög hissa á því að sumir þingmenn hafa ekkert tjáð sig um samgöngumál. Það finnst mér mjög undarlegt, satt best að segja, vegna þess að þetta er eitt af stóru málunum og varðar okkur öll. Umferðaröryggi skiptir okkur öll máli. Þess vegna er forgangsröðun í samgönguáætluninni mjög mikilvæg og hún snýst öðru fremur um öryggismál, að við förum í að bæta þau samgöngumannvirki þar sem umferðin er mest og öryggismálin skipta mestu og síðan að þakka fyrir það sem vel er gert.

Það má heldur ekki gleyma því að samgönguáætlun er í gildi þannig að það er ekki verið að tefja eitt eða neitt með því að fara vandlega yfir þetta mál. Það er fullkomlega eðlilegt að tekinn sé góður tími í að fara yfir það. Ég vildi minnast sérstaklega á það af því að herra forseti gat þess réttilega að þetta væri 15. ræða mín um samgönguáætlun. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að minna mig á það. Það er bara ánægjulegt. Ég veit að hér hafa þingmenn Miðflokksins flutt nokkuð margar ræður um þetta mál en allar hafa þær verið málefnalegar, svo sannarlega, og enginn getur sagt að ræður Miðflokksmanna um samgönguáætlun hafi ekki verið málefnalegar. Það er rétt að halda því til haga. En þetta var nú kannski ekki (Forseti hringir.) það sem ég ætlaði að tala um, herra forseti, ég ætlaði að tala um flugstefnu og flugþjónustu innan lands (Forseti hringir.) og utan þannig að ég bið herra forseta að setja mig (Forseti hringir.) aftur á mælendaskrá.