150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Í hnotskurn má segja að við deilum um hvernig eigi að skipta takmörkuðu fjármagni í fjárfestingar í vegakerfinu og samgöngumálum almennt. Ég hef sérstaklega verið að velta fyrir mér fjárfestingum til hágæðaalmenningssamgangna vegna þess að ég er eindreginn talsmaður greiðra og góðra almenningssamgangna. Ég hef einungis verið að tala um hvernig allar hugmyndir um borgarlínuna eru fram settar og byrjaði á að vitna í grein eftir Þórarin Hjaltason umferðarverkfræðing sem birtist nýlega í Kjarnanum. Þar talar hann um, herra forseti, að framsetningin líkist miklu fremur áróðri en því að hugmyndirnar séu settar fram með greinargerðum og öðrum málefnalegum rökstuðningi. Ég hóf yfirferð mína þar sem hann tók í grein sinni dæmi um áróðurskennda framsetningu málsins. Síðan rekur Þórarinn umræðu, sem kemur væntanlega frá áróðursmeisturum draumaverksmiðjunnar um hver áhrif breyttra ferðavenja verði og bílaumferð verði 20% minni árið 2040 en ella.

Ég ætla að lesa upp úr grein hans örlítið meira þar sem segir:

„Þegar aðstandendur Borgarlínunnar ræða um að breyttar ferðavenjur muni leiða til þess að bílaumferð verði 20% minni en ella árið 2040 þá er gjarnan sagt í leiðinni að Borgarlínan sé veigamikill þáttur í því. Fólk sem hlustar á þetta eða les um þetta fær gjarnan á tilfinninguna að Borgarlínan muni leiða til þess að bílaumferð verði 20% minni en ella árið 2040. Þetta er mjög lævís áróður og hafa margir fallið í þá gildru að eigna Borgarlínunni þessi 20%. […] Miðað við það mun Borgarlínan í besta falli leiða til þess að bílaumferð verði 4–5% minni en ella árið 2040.“

Síðan til að benda enn frekar á einhliða áróður í sambandi við borgarlínu lýsir Þorsteinn nokkrum vafasömu fullyrðingum á vefsíðu borgarlínu, borgarlínan.is. Þar er t.d. spurt: Hvað ef við sleppum borgarlínu? Ég les upp úr grein Þórarins, með leyfi forseta, það sem stendur á vefsíðunni:

„Ef ekki verður af borgarlínu er óhjákvæmilegt að fjárfesta í vega- og gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins fram til ársins 2040 fyrir allt að 250 milljarða. …“

Og nokkru síðar stendur á vefsíðunni: „Þrátt fyrir ofangreindar fjárfestingar munu umferðartafir nær tvöfaldast til ársins 2040.“

Þetta er á vefsíðu borgarlínunnar. Um þetta segir Þórarinn umferðarverkfræðingur:

„Þetta er vægast sagt mjög villandi framsetning. Lesandi gæti hæglega fengið á tilfinninguna að með Borgarlínunni megi spara megnið af þessum 250 milljörðum og umferðartafir aukist miklu minna. Svo er alls ekki.“

Þetta segir umferðarverkfræðingurinn. Að mati hans mun borgarlínan aðeins leiða til þess að umferð árið 2040 verði í besta falli 4–5% minni en ella, auk þess sem hann telur að ódýrt hraðvagnakerfi, eins og hann hefur lýst áður í greininni, geti leitt til næstum sama ávinnings. Talan 250 milljarðar sé reyndar allt of há, segir Þórarinn, ef átt er við fjárfestingar á þjóðvegum á svæðinu, jafnvel þótt reiknað sé með Sundabraut.

Svo mörg voru þau orð. Tími minn er að verða búinn og ég vil biðja herra forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá. Í næstu ræðu mun ég fara áfram í ábendingar umferðarverkfræðingsins um áróðurskennda framsetningu vegna borgarlínu. Og maður veltir fyrir sér: Af hverju er framsetningin með þessum hætti?