150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér tvær tillögur til þingsályktunar, annars vegar fimm ára samgönguáætlun og hins vegar 15 ára samgönguáætlun. Það hefur eitthvað örlítið borið á því, sérstaklega framan af í umræðunni, herra forseti, að fundið væri að því að þingmenn Miðflokksins væru að ræða svokallaða borgarlínu. Nú stendur þannig á að til að mynda í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er fjallað um borgarlínu. Ég ætla að þingvenja sé fyrir því að í fyrri umr. um mál liggi sjálft þingmálið fyrir. Þegar komið er til síðari umr. hefur málið fengið meðferð í nefnd. Það hafa verið sendar inn umsagnir, það hafa komið gestir og nefndarálit liggja fyrir, eitt eða fleiri. Þá er það sem er til umræðu, fyrir málið sjálft, nefndarálitin og umsagnirnar sem borist hafa. Í nefndaráliti meiri hluta er vikið að borgarlínu í kafla sem heitir Samgöngusáttmálinn og er á bls. 16–17. Ég tel að þessu sögðu að það sé fullkomlega heimilt að fjalla um þetta viðfangsefni frá þinglegu sjónarmiði.

Um hvað snýst þessi umræða um borgarlínu? Hún snýst kannski ekki síst um ábyrga meðferð á ríkisfé. Það sem liggur fyrir hér er að í skyldri þingsályktunartillögu, sem liggur hérna við hliðina, er talað um að ríkið ætli sér að setja tugi milljarða, nánar tiltekið 49,6 milljarða, til þessa verkefnis. Þetta er stærsta einstaka framkvæmdin sem er sjáanleg í öllu þessu móverki, þ.e. í samgönguáætlununum tveimur, annars vegar til fimm ára og hins vegar til 15 ára, og í þeim frumvörpum sem liggja hér til hliðar við hana, sem eru annars vegar frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags og hins vegar frumvarp sem lýtur að samstarfi opinberra aðila og einkaaðila við samgönguframkvæmdir. Þetta er það sem málið snýst um.

Af hálfu okkar Miðflokksmanna, herra forseti, hefur oftar en einu sinni verið vakin athygli á grein eftir kunnáttumann, samgönguverkfræðing sem auk þess hefur viðbótarmenntun í rekstrarfræði með viðskiptagráðu á meistarastigi og hann nam sína verkfræði í tveimur háskólum í tveimur löndum. Það er ekkert flókið að skilja málflutning verkfræðingsins vegna þess að hann skýrir mál sitt á mjög einfaldan hátt. Hann rekur það að dýrasti hluti hraðvagnakerfis, eins og borgarlínu er ætlað að vera, sé sérrými eða sérakreinar fyrir hraðvagna sem bera upp umferðina á þessari borgarlínu. Hér á landi er gert ráð fyrir því, segir höfundur, að meiri hluti leiðakerfis borgarlínu verði í sérrými. Síðan tekur hann dæmi frá Bandaríkjunum og Kanada. Hann segir að samanlögð lengd hraðvagnaleiða með sérakreinum sé hlutfallslega ekki mikil, sérstaklega í minnstu borgunum og það ætti þá að sínu leyti við um Reykjavík. Ef tekið væri mið af þessu, segir höfundur, kostar ekki nema nokkra milljarða að ljúka gerð sérakreina fyrir strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þannig megi spara nokkra tugi milljarða án þess að það komi að ráðið niður á þjónustu strætós.

Hæstv. forseti. Hvar eru svörin við þessari grein? Hvernig geta menn haldið þessu máli til streitu án þess a.m.k. að útskýra hvað það er í greininni sem ekki fær staðist. Það er bara mjög einfalt að svo stór hluti eigi að fara í þetta akstursrými eða þessa sérreinar og mætti vera minna að dómi (Forseti hringir.) höfundarins og er minna miðað við þær fyrirmyndir sem hann nefnir í grein sinni.