150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að halda áfram með það sem ég var að ræða í fyrri ræðu áðan, og það er þá einna helst um almenningssamgöngur og flug, og setja það í samhengi við það fjármagn sem ætlað er til borgarlínu og enn frekar hvort það sé góð forgangsröðun fjármuna. Ef farið er í gegnum langtímasamgönguáætlunina, sem ég vel að kalla svo, má finna þar klausu sem nefnir að uppsöfnuð þörf sé á viðhaldi og framkvæmdum í innanlandskerfinu, með innanlandskerfinu er átt við flug, eftir aðhaldsaðgerðir undanfarinna ára. Í þessari sömu langtímaáætlun er talað um að þjónustan á flugvellinum í þessu grunnneti verði svipuð og verið hefur og þá er kannski það atriði sem ég hef áhyggjur af, með leyfi forseta, en í áætluninni segir: „… með fyrirvara um breytingar samfara öðrum samgöngubótum á tímabilinu.“

Ég staldra aðeins við þetta. Er verið að segja þarna að borgarlína, þar sem stofnkostnaðurinn er vel að merkja 50 milljarðar plús og aðeins 4% nýta eins og staðan er núna, það er ekki nema 4% nýting á strætó á höfuðborgarsvæðinu, sé flokkuð sem samgöngubót á tímabilinu? Er þá hægt að segja að það hafi áhrif á viðhald flugvalla í grunnneti? Og þá hef ég auðvitað áhyggjur af litlu flugvöllunum sem ég ræddi um áðan vegna þess að ég held að það sé nokkuð öruggt að Keflavík, Akureyri, nú get ég ekki sagt Reykjavík því að það er alls óljóst með þann flugvöll, og Egilsstaðaflugvöllur alla vega séu nokkuð öruggir áfram. Er það virkilega blessað af ríkisstjórninni með því að taka svona til orða, og ég ætla að endurtaka orðin, með leyfi forseta, að fyrirvari um breytingar samfara öðrum samgöngubótum á tímabilinu geti frestað því að ráðist verði í viðhald sem er sannarlega nauðsynlegt á minni flugvöllum í svokölluðu grunnneti?

Við heyrðum hérna um daginn í ágætri ræðu að það væru 4% sem nýttu sér almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en til að þessar sömu samgöngur stæðu undir sér þyrfti 40% nýtingu. Og ég hef áður minnst á að mér finnst alls ekki fullreynt að fara í ýmsar leiðir til að fá fleiri til þess að nota almenningssamgöngur. Ég hef nefnt að það sé frítt í strætó á Akureyri. Það mætti hugsa sér, t.d. þar sem við erum með stóra vinnustaði niðri í bæ, eins og það heitir hér, að hugsanlega gætu einhverjir fengið frítt í strætó á leið til vinnu og frá vinnu, og sjá hverju það myndi skila. En þetta er að verða dálítið snúið allt saman og eftir því sem maður les lengra þá fer maður að hafa enn frekari áhyggjur af því að landsmenn allir muni hreinlega sitja eftir vegna þess að við ætlum að þjónusta þau 4% sem nýta sér almenningssamgöngur í dag. Ég tel að það sé ekki rétt forgangsröðun og ég mun halda áfram með þennan þráð í næstu ræðu og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.