150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í þessari ræðu langar mig að dvelja í fimm mínútur vestur á Vestfjörðum. Ég prentaði út ítarlega umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um samgönguáætlun og samgöngumál, sem er mjög vel útfærð, og langar mig til að grípa niður í einstaka setningar úr henni, með leyfi forseta:

„Vilji stjórnvalda til eflingar byggða um land allt liggur fyrir af hálfu Alþingis með byggðaáætlun og í ríkisstjórnarsáttmála. En til að bregðast við langvarandi neikvæðri byggðaþróun þarf mikið átak til. Stjórnvöld hafa beitt sér með sértækum aðgerðum á síðustu áratugum með því að stuðla að uppbyggingu stóriðju og hafa beitt öðrum áætlunum, svo sem samgönguáætlun, til að styðja við slík verkefni.

Horft til Vestfjarða í heild þá hefur landshlutinn um rúmlega 30 ára skeið glímt við samdrátt í efnahagslífi, samhliða stöðugri fækkun íbúa, auk áfalla vegna náttúruhamfara. Fækkun íbúa eftir sveitarfélögum er á bilinu 25–45% og aldursamsetning hefur breyst verulega til hins verra.

Sértæk inngrip stjórnvalda hafa vissulega komið til á Vestfjörðum í gegnum árin til að mæta þessum vanda, en ekki af því afli sem stóriðjuverkefni hafa fengið og því ekki skilað eins miklum árangri og væntingar stóðu til. Telja verður nú þegar ný sóknarfæri hafa komið fram að landshlutinn fái leiðréttingu sinna mála, en samt með minni beinum inngripum en verið hafa.

Hér er vísað til þess að á síðustu fimm árum hefur loks hægt á neikvæðri byggðaþróun á Vestfjörðum. Þannig er orðinn viðsnúningur á sunnanverðum Vestfjörðum og verulegur bati á norðanverðum Vestfjörðum og Reykhólahreppi. Þáttur fiskeldis í þessari breytingu er þar einna stærstur en ferðaþjónusta, sjávarútvegur og iðnaður koma þar á eftir. Á Ströndum er hins vegar áframhaldandi neikvæð þróun. Samdráttur í sauðfjárbúskap hefur þar veruleg áhrif til hins verra auk erfiðleika í sjávarútvegi.“

Þetta hljómar kunnuglega í mínum eyrum og ég talaði um það í ræðu í gær hvað gríðarlega mikið hefur breyst á Vestfjörðum. Þá sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum, eins og ég gat um, þar sem fiskeldið hefur komið inn með gríðarlegu afli og breytt þróun þeirra byggðarlaga til hins betra. En sá flöskuháls sem liggur í samgöngumálum er enn þá til staðar. Í ræðu minni talaði ég um veginn um Gufudalssveit og síðan eru vegirnir á milli staðanna Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar eins og þeir eru. Þótt þar sé bundið slitslag er ófærð mikil þar á vetrum.

Það er ákall Vestfirðinga að stjórnmálin komi sterkt inn og veiti meiri innspýtingu í þennan stað í ljósi stefnunnar um uppbyggingu stóriðju og samgangna þangað. Það má segja að Vestfirðingar séu orðnir stóriðja í verðmætasköpun á landsvísu og hafa reyndar alltaf verið. En mikið hefur bæst í það, sérstaklega með tilkomu laxeldisins. Þá eru samgöngumálin í ólestri og einnig kalla önnur innviðamál eftir meiri þjónustu vegna fjölgunar fólks. Ég hef leyft mér að segja að það séu frekar lúxusvandamál. En samgöngumálin eru ekkert lúxusvandamál. Þau eru grafalvarlegt vandamál. Þar verður að bæta mun betur úr.

Hæstv. forseti. Ég bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.