150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef ekki haft mikinn tíma til að ræða um borgarlínuna. Hins vegar hafa margir stjórnarþingmenn kvartað yfir því að við séum að ræða mikið um hana. Ég hef einfaldlega eytt tíma mínum í að ræða samgöngumál, sérstaklega í Suðurkjördæmi, enda er fullkomlega eðlilegt í ljósi þess sem er hér til umræðu, samgönguáætlunar, að þingmenn komi inn á áhersluatriði sem lúta að kjördæmi þeirra.

Ég ætla að víkja aðeins að málefnum borgarlínunnar, herra forseti, vegna þess að það er stórt og mikið mál og umdeilt og kostar mikla fjármuni. Hér er lagt upp með, og í öðru lagafrumvarpi sem lýtur að svokölluðu hluthafasamkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, að setja mikla fjármuni af hálfu ríkisins í þetta eina verkefni sem er borgarlína. Við í Miðflokknum höfum sagt það og ég sagði það í nefndaráliti mínu að við værum hlynnt þessum áherslumálum í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að þarna sé kominn farvegur til að fara í mikilvægar framkvæmdir. Við nefnum sem dæmi stofnbrautir og ekki síst hjólreiðastíga og stíga fyrir vistvæna samgöngumáta, eins og gangandi vegfarendur.

Við getum hins vegar ekki sætt okkur við borgarlínuna af ýmsum ástæðum sem við höfum tilgreint í ræðum okkar. Og aðrir þingmenn Miðflokksins hafa gert það. Þegar við ræðum um borgarlínuna finnst mér nauðsynlegt að leitað sé sérfræðiálita og að umræðan sé ekki alveg einhliða eins og Reykjavíkurborg hefur svo sannarlega staðið fyrir. Það er bara einhliða umræða um að þetta sé mjög gott verkefni sem verði að fara í gegn. Og ríkissjóður á að borga 105 af 120 milljörðum. Það er ósköp auðvelt að mæla fyrir stórum framkvæmdum þegar maður þarf ekki að borga þær sjálfur, eins og á við um Reykjavíkurborg. Þetta er þannig vaxið að það er fullkomlega eðlilegt að báðar hliðar séu skoðaðar, kostir og gallar verkefnisins. Því miður hefur bara verið einhliða málflutningur af hálfu borgaryfirvalda um kosti þessa mannvirkis. Þetta mannvirki er verulegt og kostnaðarsamt og þess vegna eðlilegt að menn leiti til sérfræðinga sem hafa kannski einhverja aðra skoðun og sjá það með augum þekkingar sinnar og sérfræðikunnáttu á skipulagsmálum. Það er fullkomlega eðlilegt að leita til þeirra og við gerum það í öðrum málefnum. Við gerum það t.d. þegar kemur að fjármálum. Fjárlaganefnd leitar sérfræðiálits, t.d. álits á stefnumörkun og fjármálastefnu o.s.frv. Þá er leitað til þeirra sem eru sérfræðingar á því sviði, búnir að setja sig mjög vel inn í mál o.s.frv.

Þetta ætti að sjálfsögðu að eiga við þegar kemur að borgarlínu, að hlusta líka á álit þeirra sem eru á öndverðum meiði og ekki sammála þeirri vegferð sem Reykjavíkurborg er á. Þar vil ég nefna dr. Trausta Valsson, sem er skipulagsfræðingur, arkitekt og prófessor emeritus í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands, merkur maður sem hefur lagt mikið til skipulagsmála á Íslandi á sínum langa ferli sem fræðimaður á þessu sviði við Háskóla Íslands. Hann skrifaði grein, ásamt Þórarni Hjaltasyni umferðarverkfræðingi, sem töluvert hefur verið vitnað til í þessari umræðu. Þórarinn skrifaði sjálfur grein í Kjarnann sem svolítið hefur verið vitnað í. En þeir dr. Trausti Valsson og Þórarinn sendu Hafnarfjarðarbæ erindi um borgarlínu árið 2017, minnir mig, þar sem þeir eru á þeirri línu að í áætluninni sem liggur fyrir sé mögulega verið að fara út í mjög vafasamt samgöngukerfi. Og þá er ég að tala um borgarlínu.

Ég er akkúrat rétt að byrja á þessu, herra forseti, (Forseti hringir.) og þá verð ég að hætta sökum tímans. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá þar sem ég get farið nánar yfir það (Forseti hringir.) sem þeir dr. Trausti Valsson og Þórarinn Hjaltason hafa sagt um þessi mál.