150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil árétta að það sem kallað hefur verið borgarlína er hér á dagskrá og í umræðu um samgönguáætlun þegar af þeirri ástæðu að um hana er fjallað í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Eins og menn þekkja eru nefndarálit grundvöllur umræðu við síðari umr. um mál eftir að þau hafa fengið umfjöllun í nefndum.

Herra forseti. Ég vil auglýsa eftir hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og hv. þingmönnum úr þeim flokkum sem mynda meiri hlutann í Reykjavíkurborg til þessa að ræða um borgarlínu á þessum vettvangi. Ástæðan er sú að borgarlína er út af fyrir sig stærsta verkefnið sem er í sjónmáli í samgöngumálum. Það stendur þannig á að í frumvarpi sem er á dagskrá þessa fundar og er auðvitað nátengt samgönguáætlun, um stofnun opinbers hlutafélags, kemur fram að gert er ráð fyrir því að ríkissjóður leggi 49,6 milljarða til þess verkefnis sem er kallað borgarlína. Málið snýst um ábyrga meðferð ríkisfjár. Komið hefur fram að sérfróður aðili, samgönguverkfræðingur, hefur lýst því og rökstutt í grein sem ég hef fjallað um hérna, m.a. í minni síðustu ræðu, að til að greiða fyrir almenningssamgöngum — sem er auðvitað markmið sem við í Miðflokknum styðjum, okkur er alveg sama hvort það er kallað borgarlína eða eitthvað annað — þurfi ekki að verja nema nokkrum milljörðum til að ná þeim markmiðum sem leitast er við að ná í þeim efnum, í stað þess að verja til þess 50 milljörðum og kasta Keldnalandinu á eftir ofan í þessa hít.

Herra forseti. Ég auglýsi eftir hv. þingmönnum úr þessum flokkum til að ræða þessi mál. Af hverju vilja þeir halda sig við að 50 milljörðum verði varið til þessa verkefnis ef hægt er að ná sömu markmiðum með nokkrum milljörðum? Ég auglýsi eftir þeim til að ræða kostnaðaráætlun og vikmörk frá henni. Ég auglýsi eftir þessum hv. þingmönnum til að ræða arðsemisútreikninga verkefnisins. Ég auglýsi eftir þessum þingmönnum til að ræða hvernig þessi framkvæmd snertir aðra umferð.

Fjölmargt fólk þarf atvinnu sinnar vegna að fara á bifreiðum um borgina. Lítum á allan þann akstur sem fer fram til að mynda með leigubifreiðum í þágu aldraðra og fatlaðra. Ekki er ætlast til þess að það fólk ferðist með borgarlínu. Lítum á heimaþjónustu, sem er mjög mikilvægt verkefni til að gera öldruðum, og eftir atvikum öryrkjum, möguleika á því að vera á heimilum sínum sem allra lengst, á meðan þeir mögulega geta. Það eru fjölmargir aðilar sem fara á milli húsa til fólks, t.d. hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar. Einnig fara matarsendingar til fólks og svo er það fólk sem sinnir félagsþjónustu. Ekki er ætlast til þess að þetta fólk fari um farveg borgarlínu. Ég óska eftir umræðu um þetta. Ég óska sömuleiðis eftir umræðu um hvaða horfur eru á því að notkunin á borgarlínu fari úr þessum 4% sem við erum búin að spóla föst í, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason rifjaði hér upp. Notkunin á almenningssamgöngum hefur verið föst í þessum sömu 4% þau átta eða níu ár sem eru á milli mælinga.

Herra forseti. Ég á svo mikið eftir að ég verð að óska eftir því að verða settur að nýju á mælendaskrá.