150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:08]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem ég lauk máli mínu áðan en ég endaði á að segja að nú færu hlutirnir að verða snúnir og það eru þeir svo sannarlega. Gefum okkur að stofnkostnaðurinn við borgarlínu verði 50 milljarðar en þá á eftir að reka apparatið. Mig langar aðeins að minnast á sýninguna sem er í Ráðhúsinu hér handan götunnar, sem ég fór og skoðaði. Þetta er alveg ágætissýning og ef hlutir væru aðeins öðruvísi gæti hún virkilega virkað. En málið er að þó að hugmyndin sé góð er hún samt sem áður að öllu leyti óraunhæf.

Í mínum huga er það útgangspunkturinn að við skattgreiðendur á landinu öllu ætlum að greiða 50 milljarða fyrir samgönguhugmynd sem aðeins 4% nota. Mig langar að spyrja: Á kostnað hvers? Hverju þurfa landsmenn þá að fórna? Hverju eru þeir tilbúnir að fórna í raun og veru? Á þeim stutta tíma sem ég hef setið á þingi hef ég oft upplifað það, á fundum með sveitarstjórnum og landshlutasamtökum, hagaðilum og almenningi, venjulegu fólki, að allir eru þakklátir fyrir hverja einustu krónu sem þeir fá. Það kristallast hvað best í því fjármagni sem sett var til Akureyrarflugvallar, í flughlaðið og hönnun á nýrri flugstöð eða viðbyggingu, og í þeim fjármunum sem eiga að fara í að lagfæra hálfónýta flugbraut á Egilsstöðum. Hver er kostnaðurinn við það að ætla að taka frá 50 milljarða og láta annað sitja á hakanum? Ég get alls ekki stutt það.

Einnig kemur fram í samgönguáætlun, og þá er ég að tala um langtímaáætlunina, að verið er að ræða hvernig mögulegt sé að uppfylla skilyrði um tvo millilandaflugvelli á suðvesturhorninu. Það er gott og vel, en hér segir, og við erum hér enn að ræða langtímaáætlunina, framtíðaráformin, með leyfi forseta:

„Meðal annars er skoðað hvort fýsilegt sé að byggja upp í Hvassahrauni alhliða innanlands- og varaflugvöll. Engu að síður er ljóst að Keflavíkurflugvöllur verður megingátt millilandaflugs í fyrirsjáanlegri framtíð.“

Við höfum heyrt fjölmarga aðila, sem hafa mest vit á flugi og öryggi flugvalla, segja að Hvassahraun sé sísti kosturinn. En fyrir ekki svo löngu skipaði samgönguráð stýrihóp og haldinn var blaðamannafundur. Á þeim fundi lét borgarstjórinn hafa þetta eftir sér, með leyfi forseta:

„Það hefur líka verið mikill styrkur að því að allir lykilhagsmunaaðilar hafa átt sæti í nefndinni og komið að málinu. Óopinbert markmið nefndarinnar var að vera síðasta nefndin um flugvallarmálið. Ég bind miklar vonir við að það hafi tekist. Nú er kominn grundvöllur til að taka skýra stefnu í málinu og hefja rannsóknir á nýju flugvallarstæði í Hvassahrauni.“

Með öðrum orðum er ætlunin að taka flugvöllinn úr Vatnsmýri og færa hann yfir í Hvassahraun sem allir sem vit hafa á hafa sagt vera sísta kostinn og þann ómögulegasta af öllum.