150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:13]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að árétta það, vegna umræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés í morgun um að við í Miðflokknum værum eingöngu að ræða um borgarlínuna í samgönguumræðunni en það væri ekkert minnst á borgarlínuna í samgönguáætlun, að á bls. 16 og 17 í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er einmitt talað um borgarlínu, svo það sé sagt. Reyndar kom það fram í máli hv. þm. Ólafs Ísleifssonar áðan en það er rétt að árétta það að borgarlínan er rædd í samgönguáætlun og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 16 og 17.

Ég ætla í þessari ræðu að halda áfram að ræða um samgöngumál og atvinnumál, en sérstaklega samgöngumál, á Vestfjörðum. Ég minntist á punkta sem eru í skjali frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem kemur ansi skýrt fram það sem ég hef verið að tala um í ræðum, hvað það tefur mikið fyrir samgönguframkvæmdum þegar verið er að gera skipulag að umhverfismálin, umhverfisvernd og náttúruvernd, sem ég virði að fullu, tefja samt sem áður fyrir samgönguframkvæmdum, kæruferli og annað slíkt. Það kemur fram í áliti þeirra, sem er mjög vel skrifað, með leyfi forseta:

„Fjórðungssambandið telur að vinna megi með þennan fjárhagsramma en um leið geta flýtt verkefnum. Vill sambandið benda á að verkefnin eru aðskilin og reynslan hefur sýnt að fjármagn hefur frosið inni, m.a. vegna deilna um umhverfismál. Fjármagn hefur því verið til reiðu en ekki hægt að nýta það og ekki horft til heildaráhrifa á vegakerfi á Vestfjörðum sem slík bið veldur. Fjórðungssambandið vill gera tillögu um breytingu á þessari nálgun.“

Svo kemur langur texti um hvernig það vill breyta nálgun á verkefnum í ljósi þess að verkefni geti hugsanlega tafist út af umhverfismálum. Þessi landshluti hefur brennt sig á því í gegnum árin og áratugina að verkefni sem hafa verið komin á framkvæmdastig hafa verið stoppuð vegna kærumála um umhverfismál. Er þar fremst í flokki vegurinn um Gufudalssveit, Teigsskógsleiðin, sem hefur verið fjármagnaður en fjármagnið hefur ekki nýst vegna þess að ekki er hægt að byrja. Fjórðungssambandið kemur með tillögur um hvernig megi nota fjármagnið í önnur verkefni sem ekki eru umhverfisdeilur um á meðan verið að útkljá þessi mál.

Það er alveg furðulegt að við skulum vera stödd í þessum veruleika. Vil ég árétta það enn einu sinni að þegar við fjöllum um samgöngumál, umhverfismál og umhverfisvernd, sem eru að sjálfsögðu rædd, að samfélagsmál og samfélagsvernd séu rædd samhliða þannig að verkefni í öllum áætlunum um samgöngumál geti verið framkvæmd þegar þau eru tilbúin. Samgöngumálin séu ekki bara ákveðin á einangraðan hátt og svo eigi eftir að samþykkja umhverfismálin og framkvæmdir tefjist svo kannski í tíu, tuttugu ár út af deilumálum um umhverfismál. Ég legg ríka áherslu á að þetta verði lagað í undirbúningi á verkefnum í sambandi við samgöngur.

Hæstv. forseti. Ég er bara rétt byrjaður á þessum fína kafla og óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.