150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var að tala um Reykjavíkurflugvöll og var byrjaður að rekja þá samninga sem ríkið hefur gert við borgina. Í flestum tilvikum hefur þetta verið réttlætt með því að það þyrfti að lágmarka óvissu um flugvöllinn til einhverra ára. Þess vegna hefur ríkið láti sig hafa það aftur og aftur að semja við borgina um eitt og annað varðandi athugun á hugsanlegum flugvallarstæðum og öðru slíku. Það er auðvitað algjörlega óþolandi fyrir flugreksturinn og í rauninni allar flugsamgöngur innan lands að stöðugt sé viðhaldið óvissu um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Starfsemin þar getur varla þrifist á meðan óvissan er jafn mikil og hún hefur verið, hvað þá að hún geti vaxið og dafnað. Ríkið hefur þar af leiðandi neyðst til, eða væntanlega litið svo á í einhverjum tilvikum að það neyddist til, að fara í einhverjar úttektir með borginni til að kaupa á nokkurra ára fresti smávissu um framtíðarstarfsemina í Vatnsmýrinni.

Ég var búinn að nefna eina slíka tilraun frá 2013 og hvernig borgin beitti þar hreinum svikum frá mínum bæjardyrum séð og lagði skömmu síðar niður neyðarbrautina svokölluðu. En þessir samningar hafa verið fleiri og reyndar meira að segja á árinu 2013 var annað samkomulag undirritað milli fulltrúa ríkis og Reykjavíkur, þ.e. á milli Samfylkingarfólksins, þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi formanns borgarráðs var hann líklega á þeim tíma, sá sem nú er borgarstjóri í Reykjavík, samkomulag um að ríkið afhenti Reykjavíkurborg land undan flugvellinum. Borgin greiddi eitthvað dálítið fyrir, ekki mikið, en ríkið átti að fá hlutdeild í þeim tekjum sem kæmu fyrir sölu lóða og var samið sérstaklega um með hvaða hætti það yrði gert. Þetta hefur verið svikið líka að því er virðist. Borgin hefur ekki staðið við þetta samkomulag og ekki útséð með hvað ríkið fær á endanum fyrir þetta land. En það er kannski ekki aðalatriðið heldur það að ríkið skuli hafa leyft sér af afhenda land undan flugvelli sem er sameign landsmanna, eins og ég rakti hér í þarsíðustu ræðu, sem var ekki ríkisland af tilviljun heldur vegna þess að það var undir flugvelli sem var afhentur þjóðinni til eignar og umráða og þjónar auðvitað allri þjóðinni, Reykvíkingum en einnig íbúum annarra landshluta.

Þessu var ekki lokið árið 2013 því að nýjasta og versta samkomulagið gerir ráð fyrir því, a.m.k. að sögn borgarstjórans, að flugvöllurinn fari. Blekið var rétt þornað á nýjasta samkomulaginu þegar borgarstjórinn lýsti því yfir að þar með væri samgönguráðherra búinn að undirrita það að Reykjavíkurflugvöllur ætti að fara og talaði þá sérstaklega um Hvassahraun. Hvassahraunsvalkosturinn hafði verið skoðaður áður og menn komist að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun hentaði ekki undir Reykjavíkurflugvöll. En í því efni létu menn sér ekki segjast frekar en öðru og aftur var gert samkomulag um að skoða Hvassahraunskost, ef ekki, eins og borgarstjórinn heldur fram, beinlínis gera ráð fyrir honum. Í öllu falli var borgarstjóri með það algerlega á hreinu að samgönguráðherra hefði gert við sig samning um að Reykjavíkurflugvöllur ætti að fara.

Það er því ekki hægt að segja að með þessu hafi óvissu um flugvöllinn verið eytt eða dregið úr henni til nokkurs tíma, þvert á móti. Þetta nýjasta samkomulag, versta samkomulagið sem gert hefur verið um stöðu Reykjavíkurflugvallar, ýtir eingöngu undir og eykur óvissuna um flugvöllinn. Og hverjir verða reiðubúnir að fara í einhverja uppbyggingu á flugvelli sem fullyrt er að ríkið sé búið að samþykkja að eigi að fara?