150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu minni gerði ég að umtalsefni ágæta grein frá því 2. júní eftir Hilmar Þór Björnsson arkitekt þar sem hann lýsir 15 ára gamalli tillögu Péturs H. Ármannssonar arkitekts um borgarlínu sem var líklega tíu sinnum minni í sniðum en það sem nú er á döfinni. Hann birtir líka mynd af fyrsta áfanganum sem manni skilst að eigi að taka í notkun af þessari borgarlínu, sem mörg okkar vita nú ekki hvað er. Þar er um að ræða leið sem liggur frá Ártúnshöfða og suður í Hamraborg í Kópavogi. 13 km leið, herra forseti. Það eru 25 stöðvar á leiðinni. Það væri kannski þess virði að gera þá tilraun, og maður gæti gert það sjálfur, að aka þessa leið, stoppa 25 sinnum og sjá hversu lengi ferðalagið stendur.

Sá ágæti maður, Hilmar Þór Björnsson, viðraði í greininni sömu áhyggjur og ég hef áður lýst. Nú skilst manni, herra forseti, að þegar búið er að stroka með strokleðri út af myndunum sem hafa birst þar sem djarfar fyrir lestarsporum þá virðist sitja eftir eitthvert farartæki sem lítur út eins og strætó á sterum, þ.e. strætó með kannski tveimur liðum. Það eru ekki hefðbundnu strætisvagnarnir sem við erum vön úr umferðinni í Reykjavík sem nota bene, herra forseti, eru 12 metra langir bílar og 20 tonn að þyngd. Ef það er rétt að borgarlínuvagnarnir séu kannski 2,5 sinnum stærri eru þeir væntanlega farnir að nálgast 15, 16 metra að lengd og einhver 30, 40 tonn að þyngd.

Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að af þessari teikningu að dæma eiga vagnarnir að keyra eftir Lækjargötu, herra forseti. Og þeir eiga að keyra Skothúsveg. Þeir eiga að keyra yfir brúna á Skothúsvegi, yfir Tjörnina. Ekki það að ég sé með meirapróf í akstri, það er ég ekki, en ég velti fyrir mér, herra forseti: Hvernig ætla menn að ná beygjunni af Lækjargötu, inn á Skothúsveg og til baka, á bíl sem er kannski 16 metra langur og 40 tonn að þyngd? Ég bara spyr. Ég spyr líka, af því að nú er brúin á Skothúsvegi, falleg sem hún er, komin til ára sinna: Kallar þessi gríðarlegi þungi ekki á styrkingu á þessum leiðum?

Síðan viðrar Hilmar Þór Björnsson arkitekt sömu áhyggjur og ég hef viðrað sjálfur varðandi suðurenda fyrsta áfangans, þegar búið verður að byggja brúna yfir Fossvoginn sem einu sinni átti að vera fyrir hjólandi og gangandi en er núna fyrir hjólandi, gangandi og strætisvagna. Nú er ég enn þá að horfa á þessa stærð á ökutækjum, herra forseti. Samkvæmt fyrstu drögum er þeim ætlað að fara um 60 ára gamlar húsagötur í Kópavogi. Það er ekkert pláss til að stækka þær, ekkert pláss til að breikka. Það eru barnaskólar sitt hvorum megin við þessar götur. Það er barnaskóli beggja vegna Borgarholtsbrautar og síðan er barnaskóli við Digranesveg, reyndar menntaskóli líka, þar sem þessi ferlíki eiga að fara hjá. Nú hefur manni verið sagt að farartækin eigi að ferðast á umtalsverðum hraða til að stytta ferðatíma. Þetta er áhyggjuefni, herra forseti.

Ég kemst ekki lengra vegna tímaskorts og verð því að biðja hæstv. forseta um að setja mig á mælendaskrá aftur.