150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir þessar vegaframkvæmdir sem talað er um á bls. 7 um stofnleiðir og annað á höfuðborgarsvæðinu. Hluti af þeim framkvæmdum sem um er að ræða fellur undir svokallaðan samgöngusáttmála. Mér finnst ekki alveg ljóst hvort það þýði að þessum framkvæmdum verði flýtt eða hvort þeim seinkar eða eitthvað slíkt. Mikilvægast er samt að ef það er hluti af því að sveitarfélögin hafi skipulagsmál sín í lagi fyrir samgöngurnar, fyrir vegina, er mikilvægt að þetta sé þarna inni. Ég ætla að fagna því að nefndin geri tillögu um að færa Krýsuvíkurveg, Hvassahraun, á fyrsta tímabil áætlunarinnar. Ég held að það sé mikilvægt að ekki verði beðið með það.

Mig langar síðan að nefna að á bls. 8 er talað um Langatanga–Hafravatnsveg (Skarhólabraut) að þar hafi ekki tekist að ljúka framkvæmdum sem áætlað var að fara í 2019, held ég hafi verið. Nefndin gerir tillögu um fjárveitingar í ár en ekkert á árinu 2021, en samt er sagt að mikilvægt sé að tryggja fjármagn á því ári. Ég velti því fyrir mér hvort það sé hugsunin að taka það upp sérstaklega og flytja þá sértillögu og þá um leið hvers vegna ekki er sett inn breytingartillaga um að bæta inn fjármagni 2021, því að það er verið að breyta tölum alveg fram til ársins 2023, og það er allt vegna borgarlínu. Maður veltir því fyrir sér hvort ástæðan fyrir því að ekki er hægt að setja meiri fjármuni í þessar vegaframkvæmdir fram í tímann sé mikil fjárþörf vegna borgarlínu.

Ég sagði fyrr í dag að ég ætlaði í öllum mínum ræðum að tengja borgarlínu inn í þau verkefni sem ég ætla að ræða hér. Ég gleymdi því reyndar í tveimur síðustu ræðum, þar sem ég var að fjalla um flugvelli. Ég ætla að bæta úr því. Að mínu viti er mikilvægt að girða fyrir alla möguleika á ófyrirséðum umframkostnaði ríkisins þegar kemur að þessu verkefni sem ágætur þingmaður kallaði draumaverksmiðju borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík. Ég tek það fram að ekki er einhugur um málið í borgarstjórn sem betur fer og hafa ýmsir fulltrúar minni hlutans þar haldið því vel á lofti.

Ég hef aðeins áhyggjur af því hversu rýrt þetta er fram í tímann, þessi mál sem talin eru upp í breytingartillögu meiri hlutans og á þá t.d. við Langatanga–Hafravatnsveg (Skarhólabraut) sem hér er nefnt. Ef um er að ræða misskilning hjá þeim er hér stendur væri vitanlega gott að meiri hlutinn kæmi upp og leiðrétti það. Það hefur lítið verið um að spurningum sé svarað hér, hvort sem það er um þetta mál eða önnur.

Kvartað hefur verið yfir því að þingmenn ræði ekki eingöngu vegamálin í samgönguáætlun. Ég skil ekki hvað það kemur öðrum þingmönnum við þegar hér eru ýmsir kaflar sem mikilvægt er að ræða um. Ég nefni kafla um samgöngusáttmálann og samvinnuverkefnin. Við höfum rætt flugstefnuna, einhverjir hafa komið inn á flugvellina og hafnirnar. Menn verða að átta sig á því að samgönguáætlun tekur ekki bara á einstökum verkefnum í einstökum kjördæmum, þó að mikilvægt sé að gæta að þeim, heldur er rammi utan um heildarfjármögnunina. Það er það sem við höfum áhyggjur af, margir þingmenn, að heildarfjármögnunin sé í hættu vegna borgarlínu.