150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég var að hefja síðustu ræðu mína þegar tíminn var úti, og var þá að byrja að fjalla um borgarlínuna. Um hana er aðeins fjallað í nefndaráliti meiri hlutans, eins og komið hefur fram, þannig að það er ekki rétt hjá sumum þingmönnum stjórnarliðsins að borgarlínan sé eitthvert aukaatriði í þessari umræðu. Hún skiptir verulegu máli, enda eru það miklir fjármunir sem ríkissjóður þarf að leggja út fyrir, u.þ.b. 50 milljarða kr.

Ég nefndi það sérstaklega að mikilvægt væri að hlusta á sérfræðinga í þessum efnum, sérfræðinga í umferðarmálum, í skipulagsmálum o.s.frv., og fá álit þeirra á þessari framkvæmd. Hún er umdeild og málflutningur meiri hlutans í Reykjavíkurborg hefur náttúrlega allur verið á einn veg, að þetta sé mjög nauðsynleg og mikilvæg framkvæmd og virkilega góð í alla staði, eins og kemur fram hjá borgarstjórnarmeirihlutanum.

Ég nefndi það að einn okkar helsti skipulagsfræðingur, dr. Trausti Valsson, hafi tjáð sig um þessi áform. Trausti er arkitekt, skipulagsfræðingur og prófessor emeritus í skipulagsfræði við Háskóla Íslands. Hann og Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur, sem vitnað hefur verið til hér í umræðunni, sendu bæjarstjóranum í Hafnarfirði bréf þar sem settar voru fram athugasemdir í átta liðum um áætlun varðandi borgarlínuna sem þeir telja að fara þurfi nánar yfir. Fyrst benda þeir á að gert sé ráð fyrir því að stofnkostnaðurinn við að byggja sérakreinar og sérgötur fyrir hraðvagna eins og borgarlínan er — borgarlínan er strætisvagnar, borgarlínan er ekki hraðlest með teinum, eins og sumir halda, sem er náttúrlega mjög flott samgöngumannvirki. Það er ekki um það að ræða, þetta eru strætisvagnar sem aka munu á sérakreinum og munu þá ekki verða fyrir töfum af annarri umferð. Þannig er það alla vega hugsað. Benda sérfræðingarnir á að gert sé ráð fyrir að stofnkostnaður við að byggja sérakreinar og sérgötur fyrir hraðvagna verði 70 milljarðar kr. til ársins 2040, eða 3 milljarðar kr. á ári. 3 milljarðar eru nú bara töluverður peningur. Það sé sambærilegt og árlegar fjárveitingar til nýframkvæmda á þjóðvegum og á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi. Hún hafi hins vegar verið mun minni síðastliðin tíu ár. Í bréfi sínu til bæjarstjórans í Hafnarfirði benda þeir auk þess á að ferðatíðni strætós tvöfaldist, sem þýðir að fjöldi vagna í umferðinni tvöfaldast, auk þess sem hraðvagnar verði þá stærri og þyngri. Þetta muni þýða að rekstrarhalli strætós miðað við það hvernig reksturinn er í dag muni tvöfaldast.

Dr. Trausti Valsson skipulagsfræðingur og Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur lýsa miklum efasemdum yfir því að hlutfall einkabílsins minnki úr 76% í 58% á meðan hlutur strætós fari úr 4% í 12%, eins og áætlanir gera ráð fyrir. Ég held að það sé mjög skynsamleg nálgun, herra forseti, vegna þess að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur sett umtalsverða fjármuni í það og í samstarfi við ríkissjóð, samgönguráðherra, að reyna að fjölga þeim sem nota strætó, en það hefur ekki gengið eftir. Það er reynsla sem við verðum líka að horfa í. Þessir sérfræðingar segja einfaldlega að það sé ótrúverðug niðurstaða að hægt sé að fjölga úr 4% í 12%, eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Herra forseti. Ég sé að tíminn er liðinn. Það er mjög skammur tími sem við höfum fyrir hverja ræðu. Ég ætla að halda áfram með þetta mál og óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.