150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:44]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ræddi áðan um nefnd sem var ætlað að kanna framtíðarflugvallarkost fyrir miðstöð innanlandsflugs. Þetta átti að vera síðasta nefndin sem var sett á laggirnar um það mál. Besti kosturinn, að mati borgarstjóra Reykjavíkur, var að miðstöð innanlandsflugs yrði færð í Hvassahraun. Mig langar að velta upp einum punkti. Millilandaflug um Reykjavíkurflugvöll hefur oftast verið til Grænlands og ég gef mér að það sé inni í þeirri tölu, þegar talað var um að fjöldi komu- og brottfararfarþega á Reykjavíkurflugvelli væri 39.000. Ég gef mér að þarna sé líka um að ræða þá einstaklinga sem hafa fengið sjúkrahúsþjónustu á Landspítala. Við getum svo velt því fyrir okkur hvort það sé besti kosturinn, hvort nær væri að nota aðra flugvelli og önnur sjúkrahús. Síðan getum við tekið til að það voru tæplega 12.000 komu- og brottfararfarþegar í millilandaflugi á Akureyri og tæplega 4.000 á Egilsstöðum. Á Egilsstöðum, miðað við þessa 4.000 farþega, liggja sóknarfærin að mínu mati. Það hljóta að vera sóknarfæri í því að vilja fjölga þeim sem fara um Egilsstaðaflugvöll viljum við líta á landið sem eina heild.

Að þessu sögðu er gott, þegar við ræðum forgangsröðun fjármuna, að setja það enn og aftur í samhengi við þá 50 milljarða sem fara í þau 4% sem nú nota almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil benda á umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, en þar segir, með leyfi forseta:

„SSA ítrekar að aukin flugumferð til og frá Íslandi krefst þess að ríkisvaldið tryggi nægjanlegt fjármagn til uppbyggingar þannig að Egilsstaðavöllur standist kröfur um aukið þjónustustig, öryggi vegna hugsanlegra náttúruhamfara og hlutverk vallarins sem varaflugvallar. Sérstaklega þarf að horfa til framkvæmda við akbraut samhliða flugbraut, flughlöð, aðflugsljós og endurnýjun á bundnu slitlagi. Tryggja þarf aðstöðu fyrir útgerð þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á Egilsstaðaflugvelli.“

Sambandið skorar síðan á ríkisvaldið að tryggja fjármuni svo setja megi upp nauðsynleg aðflugsljós á Norðfjarðarflugvelli til að hann geti betur sinnt hlutverki sínu gagnvart sjúkraflugi.

Ég ræddi hér einhvern tímann að Norðfjarðarflugvöllur var settur í stand, sem er góðra gjalda vert. En svo les ég, af því að ég las aðeins lengra í þessari áætlun, að þetta sé þó ekki komið í það horf að íbúar á þessum svæðum geti talið sig örugga. Það skal líka tekið fram að það fjármagn sem fór til Egilsstaðaflugvallar fór alls ekki í flugbrautina, eins og ég sagði áðan, heldur í akbraut. Eftir stendur flugbrautin sem er alls ekki í nógu góðu ásigkomulagi, svo að því sé haldið til haga.