150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:49]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta þennan ræðutíma áfram á Vestfjörðum og langar að koma að því í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga þar sem talað er um þær leiðir sem betur mætti vinna í. Þar kemur m.a. fram það sem ég talaði um í ræðunni á undan, þ.e. hugmyndir um að færa fjármagn til ef til tafa kæmi út af umhverfismálum. Sambandið telur upp þær leiðir sem það mælir með að verði farið í ef fjármagn í framkvæmdir á Dynjandisheiði, sem eru núna í hönnunarferli, myndu tefjast út af umhverfismálum. Síðan er sagt hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta yrði gert með því að færa fjármagn af Dynjandisheiði og þá m.a. vegna hugsanlegra tafa á afgreiðslu umhverfismats og útgáfu framkvæmdaleyfa. Reynsla kemst einnig á tímabilinu þá á rekstur vegar um Dynjandisheiði miðað við heilsársumferð, sem hæfist 2020 með opnun Dýrafjarðargangna. Fjármagn verður þá ekki heldur bundið við framkvæmd á Vestfjarðavegi 60 í Gufudalssveit ef ófyriséðar tafir verði enn á þeirri framkvæmd, en þar hefur fjármagn verið bundið í síðustu 10 ár án þess að geta nýst í aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum.“

Þarna kemur bara alveg skýrt fram það sem ég talaði um í síðustu ræðu.

Svo aðeins um byggðaaðgerðir á Ströndum og hringveg 2, sem kallaður er:

„Samkvæmt tillögu samgönguáætlunar verða lagðar 1.050 millj. kr. í Veiðileysuháls og Innstrandaveg með 300 millj. kr. framkvæmd undir lok fyrsta tímabils og 750 millj. kr. framkvæmd á öðru tímabili. Vegna bráðs byggðavanda er lagt til að þessu fjármagni verði veitt á fyrsta tímabil og fjármagn komi þar inn.

Aðgerðaleysi stjórnvalda varðandi Árneshrepp á síðustu áratugum, með ítrekuðum frestunum á samgönguverkefnum, hafa haft bein áhrif á fækkun íbúa og fækkun sauðfjárbúa í sveitarfélaginu. Er svo komið að heilsárbúseta í sveitarfélaginu er í bráðri hættu.

Endurbætur á Innstrandavegi: Um er að ræða 5 km kafla með óbundnu slitlagi sem slítur í sundur vegkafla með slitlagi sem þjóna íbúum Strandabyggða að sækja þjónustu til Hólmavíkur, en um 18 ár eru síðan Kirkjubólshreppur og Hólmavíkurhreppur sameinuðust og 14 ár að Broddaneshreppur sameinaðist þessum sveitarfélögum í Strandabyggð. Hér er einnig um að ræða stofnveg í þjóðvegakerfi landsins.“

Eins og ég hef nefnt í öðrum ræðum eru alla vega þrír stofnvegir malarvegir. Það er mjög athyglisvert að þeir skuli vera malarvegir þegar þeir standa undir þeim merkjum að vera stofnvegir.

„Á öðru tímabili verði lagðar 3.500 millj. kr. í Innstrandaveg, sem er um 35 km kafli með óbundnu slitlagi. Með þessari tillögu verður kominn heilsársvegur með bundnu slitlagi á alla stofnvegi á Vestfjörðum og um leið verður 1.000 km ferðamannaleið, hringvegur 2, komin í gagnið með sambærlegum gæðum. Aðgerðin mun efla ferðaþjónustu í Strandabyggð og nágrannasveitarfélögum og auka öryggi íbúa í Strandabyggð að sækja þjónustu.“

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá.