150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðum talaði ég um Reykjavíkurflugvöll. Nú ætla ég að ræða Akureyrarflugvöll og byrja á að líta til umsagnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar við þessa samgönguáætlun eða þær samgönguáætlanir sem við ræðum hérna saman, annars vegar til fimm ára og hins vegar til 15 ára. Atvinnuþróunarfélagið byrjar á því að fagna þeirri framtíðarsýn sem birtist í langtímaáætluninni, 15 ára áætluninni. En svo segir, með leyfi forseta:

„Þegar aðgerðaráætlun samgönguáætlunar 2020–2024 er skoðuð kemur hins vegar í ljós að sú framtíðarsýn og markmið sem upp eru talin í samgönguáætlun fá ekki fjármagn næstu fimm árin. Hér fara ekki saman orð og efndir og góð áætlun missir marks. Almennt er hægt að fullyrða að Norðurland eystra beri skarðan hlut frá borði við skiptingu fjármagns milli landshluta.

Í lið 2.1 kemur fram að 1.319 milljónum verði varið í alþjóðaflugvelli næstu fimm árin. Þar af eru aðeins áætlaðar 78 milljónir í Akureyrarflugvöll vegna reglubundins viðhalds. Þetta þýðir að Akureyrarflugvöllur mun ekki komast í viðunandi horf á þeim tíma og gengur því þvert á stefnu stjórnvalda um uppbyggingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna og uppbyggingu Akureyrarflugvallar sem alþjóðaflugvallar líkt og kemur fram í samgönguáætlun.

Gert er ráð fyrir óbreyttri þjónustu á flugvöllum sem er óviðunandi og gerir Atvinnuþróunarfélagið alvarlegar athugasemdir enda mun þjónustan skerðast eða dragast saman næstu árin að óbreyttu.

Atvinnuþróunarfélagið gerir athugasemd við að heimild sé veitt til leigu eða kaups á nýrri flugstöð við Akureyrarflugvöll en ekki fylgja því fjármunir. Einnig þarf að standa vörð um þróun aðflugsbúnaðar og má þar nefna að skoða RNP AR og möguleika á EGNOS úr suðri.“

Með öðrum orðum, herra forseti, hvað kemur fram hér? Jú, þetta er nákvæmlega það sem ég hef verið að tala um varðandi innanlandsflugið og þessa samgönguáætlun, að yfirlýsingum er kastað fram um góð áform og þau sett í langtímaáætlunina. En þegar kemur að því gera eitthvað til að standa við yfirlýsingarnar þá vantar það alveg, eins og birtist glögglega í fimm ára áætluninni og rakið er hér, að sett sé fjármagn í að framkvæma það sem verið er að kasta fram og boða í 15 ára áætlun. Á næstu fimm árum er ekki sett neitt fjármagn í þetta. Orð og efndir fara ekki saman í umræðu og verki ríkisstjórnarinnar á sviði innanlandsflugs.

Það kemur líka fram hversu lítið fjármagn fer almennt á Norðausturland samkvæmt þessari áætlun og þau atriði talin upp sem eru brýn og aðkallandi, og búin að vera það lengi varðandi uppbyggingu Akureyrarflugvallar. Þessu er í engu sinnt. 78 milljónir næstu fimm árin vegna reglubundins viðhalds. Á meðan eru fjölmörg atriði sem þarf að laga til að Akureyrarflugvöllur geti starfað sem alþjóðaflugvöllur, önnur gátt inn í landið. Og það skiptir auðvitað algerlega sköpum fyrir atvinnulíf og uppbyggingu á Norðausturlandi að farið sé í sókn þar og byggt upp. Að í fimm ára áætlun sé ekki meira lagt til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli sýnir okkur svart á hvítu að ekkert er að marka allar yfirlýsingar um eflingu innanlandsflugs. Það fylgja engar efndir.