150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það kemur gleggra og gleggra í ljós, eftir því sem maður rýnir meira í samgönguáætlunina, hvernig öllum skattgreiðendum á Íslandi er gert samkvæmt henni að greiða fyrir skipulagsmistök í Reykjavík. Fyrir níu árum var tekið upp á því að borga 1 milljarð á ári af ríkisins hálfu til að byggja upp almenningssamgöngur, og það liggur í sjálfu sér ekkert fyrir um það, herra forseti, eins og ég benti á áður, hvernig þeim peningum var varið, en það liggur fyrir að þær væntingar sem gerðar voru til fjölgunar farþega með þeim peningum eru að engu orðnar.

Ég hef verið að velta einu æ meira fyrir mér, herra forseti. Það virðist svo að fyrstu drög að fyrsta áfanga svokallaðrar borgarlínu einkennist af tvennu. Í fyrsta lagi á að brjóta nýtt land undir vegstæði borgarlínunnar. Þar á meðal má nefna atvinnusvæði uppi á Höfða, ofan Elliðaár, sem verður lagt undir borgarlínu. Það verður hugsanlega til þess að ýta þeirri atvinnustarfsemi út úr borginni, og annarri atvinnustarfsemi sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur kostað kapps um að henda út úr borginni. Þarna erum við að tala um, herra forseti, dálítið mikið af bílasölum og það liggur fyrir, að ég held, að næsta skipulagða svæði sem er ætlað fyrir slíka starfsemi er á Esjumelum, 17 km frá miðborg Reykjavíkur. Nú er spurning hvort menn sætta sig við þetta eða hvort þeir fara í nágrannasveitarfélögin þar sem miðja höfuðborgarsvæðisins liggur, austanverðan Kópavog eða eitthvað slíkt. Nú veit maður ekkert um það. En þarna er verið að brjóta nýtt land, herra forseti, undir undir þessa samgönguleið, nákvæmlega eins og menn ætla að plægja í gegnum Keldnalandið. Ef þetta nýja opinbera hlutafélag eignast það þá ætla menn að brjóta leið í gegnum Keldnalandið undir veg og brjóta nýtt land undir veg í Blikastaðalandi þannig að borgarlínan komist áleiðis upp í Mosfellsbæ. Og ég verð að segja, herra forseti, að það stingur í stúf að flokkar sem gefa sig út fyrir að vera flokkar náttúruverndar, eins og Vinstri græn, taki fullan þátt í að brjóta nýtt land á höfuðborgarsvæðinu undir vegi. Einhvern tímann var gefið út hversu margir hektarar liggja undir akbrautum á höfuðborgarsvæðinu og þeir eru býsna margir. En nú á að fjölga þeim. Þetta finnst Vinstri grænum allt í lagi. Stundum hefur maður á tilfinningunni að þeim finnist engin náttúra vera í Reykjavík, að ef það er grænn blettur á höfuðborgarsvæðinu þá skipti ekki máli þó að hann sé afmáður. Ég veit ekki af hverju, það er bara eins og það skipti ekki máli.

Í öðru lagi er einkennið á þessum fyrstu drögum fyrsta áfanga borgarlínu að gríðarlega stórir og langir vagnar eigi að fara um húsagötur. Til dæmis þykist ég sjá á teikningum sem ég var að gaumgæfa að gert sé ráð fyrir því að ofurstórir vagnar keyri allir niður Hverfisgötu. Það var ekki gert ráð fyrir því á sínum tíma eða gerðar neinar ráðstafanir þegar sú gata var endurnýjuð fyrir nokkrum árum og nú er eitt enn, herra forseti: Búið er að byggja upp ansi margar litlar, tiltölulega ódýrar íbúðir á blettum við Hverfisgötuna. Þangað hefur leitað fólk sem er með börn. Nú vaknar þetta ágæta fólk upp við það að það var að kaupa sér íbúð við götu þar sem strætisvagnar sem eru 16–18 m langir og 40–50 tonn eiga leið um oftsinnis á dag og maður spyr sig: Hvernig stendur á því að menn ætla að gera þetta, að láta þessar ófreskjur keyra um húsagötur Reykjavíkur? Það er ótrúlegt, herra forseti.