150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var að velta fyrir mér hafnarkaflanum sem ég ætlaði að tala um á eftir. Þá sé ég frétt um að fyrir skömmu hafi orðið býsna stór jarðskjálfti úti fyrir Siglufirði, 5,2 stig sýndist mér. Það leiddi hugann að ræðu sem ég hélt hér og því sem fleiri hafa komið inn á í þessari umræðu. Það varðar leiðirnar sem liggja til og frá höfuðborgarsvæðinu, sér í lagi höfuðborginni sem og sveitarfélögunum sem eru sunnan og suðvestan við okkur, og hvernig það gangi ef upp koma þær aðstæður að við þurfum að losa fólk býsna hratt af þessu svæði. Í dag er það ekki hægt, hæstv. forseti.

Við minnumst hátíðahaldanna á Þingvöllum 1994. Margir komust hvorki lönd né strönd á leið til þeirra hátíðahalda vegna umferðarteppu. Og þá átti bara að fagna á Þingvöllum. Maður veltir fyrir sér hvernig ástandið verður þegar eða ef, því að við vonum að sjálfsögðu að ekkert gerist, við þurfum að losa svæðið mjög hratt. Það mun ekki ganga af því að borgaryfirvöld hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að berjast fyrir og tryggja auðvelda umferð bifreiða á þessu landshorni.

Ég ætla líka að leyfa mér að gagnrýna sveitarfélögin í kringum Reykjavík. Það er ekki síður þeirra hagur að íbúar þeirra geti komist í burtu komi þær aðstæður upp. Fyrir þessu hefur ekki verið hugsað. Að sjálfsögðu var ámælisvert þegar samið var um það sérstaklega fyrir um tíu árum, ég man nú ekki þessi ártöl, að gefa eftir kröfur um framkvæmdir í staðinn fyrir aura í strætó sem engu skiluðu. Eftir sitja íbúarnir með gatnakerfi sem er stíflað stóran hluta dagsins, í það minnsta oft á dag, og óvissu um hvernig þeir eigi að koma sér í burtu komi eitthvað upp. Auðvitað á að vera löngu búið að fara í þessar framkvæmdir, forgangsraða þeim í staðinn fyrir götuþrengingar í borginni, í staðinn fyrir þessar villtu hugmyndir um borgarlínu, eða hvað hún á að kallast og hefur kallast í gegnum árin, einhver furðuleg markmið um að menn geti bara tekið strætóinn eða hjólið sitt ef þeir þurfa að komast burt úr borginni.

Það mun ekki ganga. Það gengur einfaldlega ekki og þess vegna er það vitanlega nokkuð sorglegt að ekki skuli lögð meiri áhersla á það. Það er einhver sýndaráhersla á þessar framkvæmdir í tengslum við samgönguáætlun, borgarlínu og þennan samgöngusamning sem er á dagskrá þingsins. Þetta er hliðarveruleiki eins og einn hv. þingmaður meiri hlutans nefndi í andsvari við annan hv. þingmann. Í þeim veruleika lifir borgarstjórnin í Reykjavík og því miður, held ég, þeir sem stýra sveitarfélögunum í kringum höfuðborgina og hafa elt borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík, sérstaklega meiri hlutann nokkur síðustu ár. Þetta ágæta fólk, sem er örugglega að reyna að vinna sína vinnu, hefur gjörsamlega hunsað hagsmuni íbúanna þegar að þessu kemur: Hvernig á að komast hratt á milli staða á bifreiðum ef þess þarf, t.d. í neyð? Borgarlína mun ekki hjálpa nokkrum manni skapist þær aðstæður að byrji að gjósa á Reykjanesinu eða fyrir ofan Reykjavík. Hún mun aldrei hjálpa neinum. Mönnum verður ekkert staflað upp í einhverja ofurstrætóa sem komast kannski frekar takmarkað yfir þegar á hólminn er komið. Ég held reyndar að enginn viti svo sem hvers konar ökutæki þetta verða. En það er annað mál.

Ég hef áhyggjur af þessu, hæstv. forseti, af því að við eigum öll að vita hvernig náttúran á Íslandi getur hagað sér og hefur hagað sér, hvort sem það eru jarðskjálftar, eldgos, harðir vetur, flóð eða hvað það er. Við búum á eyju þar sem náttúruöflin ráða för, ekki borgarstjórinn í Reykjavík.