150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég var að hlusta á ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar þar sem hann ræddi um jarðskjálfta, jarðhræringar og í því sambandi hugsanleg eldgos. Ég get því ekki annað en minnst á að ekki er langt síðan að samgöngur um Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll fóru úr sambandi, eða ekki var hægt að nýta þessa flugvelli síðast þegar eldgos varð sem hafði þau áhrif á flugsamgöngur að það þurfti að vera hægt að lenda á öðrum völlum. Það sannaði svo sannarlega gildi sitt þá, að þeir flugvellir skiptu höfuðmáli hvað varðar öryggi fólks.

Því er haldið fram í samgönguáætlun að mikilvægt sé að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna. Ég veit ekki nema það sé vegna þess að samgönguáætlun er skrifuð á þeim tíma sem ferðamenn komu til landsins í miklum mæli. Við vitum öll að þeim hefur farið fækkandi en það breytir ekki þeirri staðreynd að við þurfum áfram að huga að greiðum samgöngum hringinn í kringum landið og að og frá landinu. Þó svo að við séum ekki endilega að ræða ferðamenn þá er ýmislegt annað sem skiptir máli, t.d. sjúkraflug sem við þurfum að geta tryggt ef á þarf að halda. Það er nefnilega þetta öryggishlutverk flugvallakosta sem hlýtur að vera eitt það mikilvægasta og það er reyndar áréttað í samgönguáætluninni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem einkum hefur ráðið forgangsröðun flugvallaframkvæmda er mikilvægi þess að tryggja að flugvellir uppfylli öryggiskröfur og staðla sem um þá gilda. […] Forgangsröðun snýst um að uppfylla öryggiskröfur á flugvöllum, m.a. viðbrögð við frávikum og er eftirfarandi:

1. Gáttir til útlanda.

2. Aðrir áætlunarflugvellir í grunnneti vegna almenningssamgangna.

3. Lendingarstaðir vegna sjúkraflugs.

4. Lendingarstaðir vegna flugöryggis í almannaflugi og kennsluflugi.“

Ég gef mér að forgangsröðunin sé þessi, að í þriðja sæti séu lendingarstaðir vegna sjúkraflugs. Það er líka tekið fram að litlar breytingar hafi orðið á grunnneti samgangna frá síðustu samgönguáætlun. Ég hef svo sem ekki kafað ofan í hvað það þýðir. Litlar breytingar eru einhverjar breytingar í mínum huga, en það er helst tekið til að bundið slitlag er komið á allan hringveginn, það er náttúrlega verið að tala um vegina, og svo er lokun flugbrautar nr. 6/24 á Reykjavíkurflugvelli tiltekin. Sú flugbraut er flugbrautin sem við þekkjum sem neyðarbrautina sem var lokað.

Það er ýmislegt sem getur gerst á Íslandi í sambandi við náttúruna og því er kannski kominn tími til að endurvekja þingsályktunartillögu sem nokkrir þingmenn lögðu fram á þinginu 2016–2017 sem kvað á um það að opna aftur neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Ég ætla jafnvel að hvetja þá þingmenn, sem hér eru enn á þingi, til að leggja fram þessa þingsályktunartillögu um opnun neyðarbrautar, sé það enn mögulegt.