150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að ræða um Akureyrarflugvöll og hef vitnað í umsögn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Akureyrarbæjar en í báðum tilvikum er dregið ágætlega fram hversu lítið er um efndir á þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið um uppbyggingu innanlandsflugvalla og eflingu innanlandsflugs. Ég held áfram þar sem frá var horfið í umsögn Akureyrarbæjar en þar segir, með leyfi forseta:

„Akureyrarbær bendir einnig á mikilvægi þess að fyrir hendi sé gervihnattaleiðsaga af bestu gerð fyrir öruggar flugsamgöngur. Staðan hér er sú að aðgangur að EGNOS leiðsögu er ótryggur og takmarkaður. Stjórnvöld þurfa að bæta úr þeim ágöllum og semja um örugga útbreiðslu merkjanna um allt land. Marka þarf skýra stefnu í samgönguáætlun sem heimilar ráðuneytum, Samgöngustofu og Isavia að raungera þau markmið. Fyrirséð er að EGNOS mun gegna lykilhlutverki fyrir frekari úrbætur á aðflugi úr suðri, sem bæta mun aðgengi að Akureyrarflugvelli enn frekar.“

Þetta EGNOS-leiðsögukerfi er nefnt í fleiri álitum eða umsögnum sem bárust samgöngunefnd þingsins og kann að vera að tækifæri gefist til að fara betur yfir það því að þetta er afskaplega mikilvægt mál, eins og drepið er á hér, og enn eitt dæmið um, þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um áformaðar framkvæmdir, að ekki er sett fjármagn í svona grundvallaratriði sem getur breytt til mikilla muna möguleikum Akureyrarflugvallar. Áfram segir um flugvöllinn í umsögn Akureyrarbæjar:

„Að öðru leyti gerir Akureyrarbær athugasemd við lítið fjármagn til flugvalla í landinu í drögum að samgönguáætlun. Mikilvægt er að innanlandsflugið um allt land verði eflt með afgerandi hætti og þá verði allar hliðar skoðaðar í því sambandi. Það er lykilatriði í byggðaþróun í landinu. Þá leggur Akureyrarbær áherslu á að hinni svokölluðu skosku leið verði komið á sem fyrst.“

Hér er þetta dregið saman í fáum setningum, þ.e. mikilvægi þess að yfirlýsingar stjórnvalda skili sér í fjármagni og að það vanti töluvert upp á það. Einnig er skoska leiðin nefnd sem ég hef fjallað um áður en enn ríkir of mikil óvissa um hana.

Ef við viljum átta okkur betur á tölunum á bak við þær athugasemdir sem ég hef rakið hér nægir að líta á breytingartillögu við samgönguáætlun frá meiri hluta nefndarinnar. Þar er að finna töflu sem sýnir viðhald og reglubundna endurnýjun búnaðar á ákveðnum flugvöllum, og hér erum við bara að tala um viðhald sem maður hefði haldið að væri lágmarkskrafa að sett væri fjármagn í. En ef við lítum fyrst á Akureyrarflugvöll þá er yfirborðsviðhald flugbrauta og hlaða efst á blaði, en gert er ráð fyrir 52 millj. kr. í það árið 2020, 5 millj. kr. árið 2021, 0 kr. 2022, 0 kr. 2023 og 0 kr. 2024. Ekki batnar það þegar við skoðum yfirlitið yfir byggingar og búnað, fjárfestingar í því, 0 kr. á árinu 2020, 18 millj. kr. árið 2021 og svo 0 kr. næsta árið, 0 kr. árið þar á eftir og aftur 0 kr., sem sagt samtals á þessum fimm árum fara 18 millj. kr. í byggingar og búnað á Akureyrarflugvelli. Loks er það ýmis leiðsögu- og ljósabúnaður og leiðrétting frávika, 3 millj. kr. árið 2020, 0 kr. á næsta ári, svo 20 millj. kr., svo 0 kr. og síðan 0 kr. Þetta eru allar efndirnar, herra forseti, á miklum yfirlýsingum um eflingu Akureyrarflugvallar og innanlandsflugsins.

(Forseti hringir.) En nú er ég ekki einu sinni byrjaður að ræða Egilsstaðaflugvöll og bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.