150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram að fjalla um álitsgerðir og umsagnir eins okkar helsta skipulagsfræðings um þessi samgönguáform í borginni. Dr. Trausti Valsson, skipulagsfræðingur, arkitekt og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, hefur skoðað þessi mál vandlega og sent inn umsögn. Auk þess sendi hann bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði minnisblað ásamt Þórarni Hjaltasyni umferðarverkfræðingi um samgönguhugmyndir um borgarlínu. Það er mjög athyglisvert að lesa það sem dr. Trausti Valsson hefur látið frá sér fara, og þá sérstaklega bók sem hann ritaði árið 2015, Mótum framtíðar, sem er mjög áhugavert að kynna sér, þar sem hann fjallar um skipulagsmál og þær tillögur sem komið hafa fram á undanförnum árum sem verið hafa í mjög slæmu sambandi við raunveruleikann, eins og hann orðar það. Í bók sinni rekur hann skelfileg dæmi úr skipulagssögu Reykjavíkur, eins og hann orðar það sjálfur, að þau ættu að duga til að kenna okkur að vera á varðbergi gagnvart útblásnum hugmyndum og minna okkur á að flýta okkur ekki um of við að taka ákvarðanir um flóknar tillögur því að við nánari skoðun gæti komið í ljós að þær væru ekki í heilbrigðum tengslum við raunveruleikann.

Maður spyr sig hvort þetta eigi ekki akkúrat við um hugmyndir um borgarlínu þegar settir eru tugir milljarða í verkefni sem menn vita ekkert um hversu ábatasamt verður eða hversu margir munu nýta sér þann samgöngumáta sem felst í því að nota strætó. Síðan fjallar Trausti um tillögur tengdar borgarlínunni og nefnir að við ættum að taka okkur nokkur ár í slíka skoðun og gera þá skoðun að hluta í endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, því að hérna hangi miklu meira á spýtunni en val leiða fyrir forgangsreinar eða sérgötur borgarlínu, eins og dr. Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, orðar það.

Síðan fjallar Trausti um strætó og leiðarlestarkerfi og getur þess að þau séu ýmiss konar, eins og við þekkjum. Í borgarlínukerfinu liggja línurnar frá miðju og út, aðallega út frá eldri hluta Reykjavíkur, og aðalmiðpunkturinn er umferðarmiðstöðin, BSÍ, sem þýðir að oft þarf fólk að fara þangað vestur eftir, t.d. til að ná hraðstrætó eða lest upp í Mosfellsbæ. Ég held að menn hafi ekki hugsað það nákvæmlega hvernig þetta er í raun, þ.e. að maður þarf að komast á þessa staði til að geta nýtt þessa samgöngumáta og það felast jú ákveðnar tafir í því.

Dr. Trausti Valsson segir að víða erlendis liggi línurnar oft þvert á radíallínurnar eða frá miðju og út. Á höfuðborgarsvæðinu þýddi það að sjaldnar þyrfti að fara inn til Reykjavíkur til að komast á milli sveitarfélaga. Síðan fjallar Trausti um þau kort sem sýnd eru og fylgja borgarlínutillögunni, og svokölluð upptökusvæði línanna, en þau eru um 400 m breiðir borðar til beggja handa. Á þessum svæðum er líklegt að fólki þyki ekki of langt að fara út á brautarstöðvar. Það er svo sem ekki svo langt að fara þaðan. En á þessum upptökusvæðum búa í dag miklu færri íbúar en þörf er á til að standa undir rekstri línanna. Þess vegna gerir skipulagstillaga ráð fyrir að meðfram þessari borgarlínu verði á báða vegu reist þétt blokkarbyggð sem tvöfaldar u.þ.b. íbúafjöldann á upptökusvæðunum til ársins 2040. Það er á þessum þröngu línusvæðum, sem eru 400 m breið, þar sem mestur hluti nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu á að rísa, það er íbúafjöldi sem samsvarar núverandi samanlögðum íbúafjölda Kópavogs og Hafnarfjarðar. Þetta verður ekkert sérlega aðlaðandi byggð sem reisa á meðfram þessum línum til að fá fólk til að nýta þessar línur.

Herra forseti. Ég sé að tíminn er liðinn og ég er rétt byrjaður að fara yfir þessa umsögn dr. Trausta Valssonar og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.