150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram að rifja upp ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen. Hún kom inn á nokkuð sem ég ræddi einnig, þ.e. þær áætlanir sem uppi eru varðandi notkun á þessari borgarlínu. Enn og aftur, herra forseti, er ástæðan fyrir því að ég ræði borgarlínu hér sú að ég hef fyrst og fremst áhyggjur af því að verkefnið sé, eins og þingmaður úr stjórnarliðinu orðaði það, reyndar í tengslum við annað, einhvers konar hliðarveruleiki sem einhverjir hrærast í, að þetta gríðarlega stóra verkefni sé ekki nógu vel ígrundað og að svokölluð borgarlína, þetta fyrirbæri, sé mjög óljóst, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen bendir reyndar á í ræðu sinni. Þar af leiðandi finnst mér ekki annað hægt en að gagnrýna það. Mér finnst mjög mikilvægt fyrir okkur sem gagnrýna verkið að það komist a.m.k. í bækur þingsins að menn hafi varað við málinu, hvað sem verður, hvort sem hægt er að breyta einhverju eða setja meiri fyrirvara á þátttöku ríkisins, eða einhvers konar loku þannig að ekki sé bara einstreymi úr ríkissjóði inn í verkefnið. Ef það er hægt væri það vitanlega til bóta.

Hv. þingmaður nefnir í ræðu sinni að í áætlun um hlutdeild almenningssamgangna, þ.e. notkunina, sé stefnt að því að fara upp í 8%. Árið 2011 var þátttakan 4% og voru settir miklir fjármunir í að auka hana. En hún er enn þá 4–5%. Ég held að það séu nýjustu tölur um notkun á almenningssamgöngum. Auðvitað tína þeir sem eru fylgjandi borgarlínu til að það sé út af hinu og þessu, að þetta sé ekki nógu veigamikið og flott og sé erfitt. En af hverju bæta menn ekki bara þjónustuna við það sem er í dag, auka tíðni ferða? Og líkt og hv. þm. Sigríður Á. Andersen bendir á og ég benti líka á í ræðu minni og fleiri hafa sagt, m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur, mætti prófa að hafa frítt í strætó, kenna fólki að nota fararmátann áður en farið er í tugmilljarða fjárfestingu. Ég minni aftur á verkefnið í Noregi, sem áður hefur verið minnst á hér, þar sem 50 km áttu að kosta 50 milljarða en það endaði í rúmum 200 milljörðum, samkvæmt grein í Viðskiptablaðinu.

Við erum að ræða þessa ábyrgð og við viljum að sjálfsögðu reyna að fá menn til að opna hugann og hafa fyrirvara fyrir hönd ríkissjóðs á verkefninu því að auðvitað verða sveitarfélögin að bera ábyrgð á því ef þau vilja fara í þennan leiðangur. Höfuðborgin þarf að bera ábyrgð á sínum hlut og nágrannasveitarfélögin sem álpast til að taka þátt, í rauninni fyrir einhverjar flýtingar á framkvæmdum sem voru hvort sem er á áætlun, þurfa að bera ábyrgð. Reykjavíkurborg og meiri hlutarnir sem stýra Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi, Sjálfstæðismennirnir á þessum stöðum, þurfa að bera ábyrgð á því hvernig farið er með fé íbúa í bæjarfélögum þeirra. Framkvæmdin virðist vera draumsýn ein, eins og einhver nefndi hér. Það er alla vega mikil draumsýn að ætla að koma notkuninni úr 4%, miðað við hvað lagt er upp með hér.

Auðvitað talar hv. þingmaður út frá stöðu sinni sem 1. þingmaður Reykvíkinga og það er eðlilegt að hún gagnrýni hvernig framkvæmdastoppið hefur farið með fjölskyldurnar í Reykjavík. Maður getur verið algerlega sammála hv. þingmanni. Auðvitað er ömurlegt fyrir fjölskyldurnar á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er í Reykjavík eða nágrannasveitarfélögunum, að þurfa að eyða stórum hluta af tíma sínum í að bíða í umferðarhnútum vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki staðið sig í að láta umferðina ganga, ekki staðið sig í því að hafa mannvirkin sem á þarf að halda í lagi. En hv. þm. Sigríður Á. Andersen gagnrýnir ekki bara, hún bendir á lausnina, hún bendir á að menn geti t.d. byggt tvenn ákveðin mislæg gatnamót sem yrðu til þess að létta á umferðinni.

Herra forseti. Það er ástæða til að fara betur yfir þessa ræðu því að hún er að mörgu leyti merkileg. Ég sakna hins vegar þess að fleiri flokksfélagar komi hingað upp (Forseti hringir.) og greini frá skoðunum sínum á málinu.