150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:28]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég var aðeins byrjuð að glöggva mig á skosku leiðinni og fann skýrslu sem ég þarf að lesa um þá leið, hvernig hún er framkvæmd í Skotlandi. Ég ræddi líka áðan hversu mikið ólán það var að loka neyðarbrautinni. Ekki er hægt að opna hana aftur, ef ég skil rétt, vegna þess að það féll hæstaréttardómur um að það hefði verið löglegt, nema aðilar ætli að fá sér einhverjar skaðabætur. Þannig að það er úr sögunni. En svo ég víki aftur að skosku leiðinni þá er mjög mikilvægt að huga að einhvers konar niðurgreiðslufyrirkomulagi á flugsamgöngum ef við ætlum að líta á þær sem almenningssamgöngur. Ég man eftir því í fréttum að það kostaði fjölskyldu um 200.000 kr. að fara til Reykjavíkur frá Egilsstöðum yfir helgi ef fólk ætlaði að fara fljúgandi. Fyrir það væri kostur að geta notað skosku leiðina. Ég sé skosku leiðina meira sem tæki til að fara og sækja sér menningu. Ég man reyndar eftir því að verið var að ræða að þá væri það landsbyggðin sem myndi vilja sækja menningu til höfuðborgarinnar en því hefur hvergi verið haldið á lofti að það séu líka höfuðborgarbúar sem vilji sækja menningu til landsbyggðarinnar. Það er svolítið sérstakt að það skuli ekki koma fram.

Nú er það þannig að við erum með niðurgreiðslu á ferðum sem tengjast heilbrigðisþjónustu. Það er í gegnum Sjúkratryggingar Íslands sem fólk getur sótt um endurgreiðslu á ferðum. Fólk fer gjarnan með flugi í slíkar ferðir vegna heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og það er svoleiðis að fólk leggur fram reikning og það tekur svo einhvern tíma að fá hann endurgreiddan. Ég þekki dæmi þess að fólk er að fá yfirdrátt eða Visa-raðgreiðslur hreinlega til að standa undir þeim kostnaði sem er algjörlega óásættanlegt.

En það sem mig langaði að segja, af því að ég gat aðeins kíkt á skýrsluna um skosku leiðina, er að þar er einmitt tekið fram að þeir sem ekki fá endurgreitt frá þriðja aðila, sem er núna Sjúkratryggingar Íslands, eiga ekki rétt á niðurgreiðslu í Skotlandi, í skosku leiðinni. Það er allt í lagi og ég skil það sjónarmið mjög vel. En það er samt sem áður þannig að Sjúkratryggingar Íslands túlka margt mjög þröngt og oftar en ekki hafa læknar kallað til sín sjúklinga oftar en Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða ferðir og þá þarf fólk oft að standa sjálft undir kostnaði. Gefum okkur að það þurfi að tilgreina í skosku leiðinni hvert erindið er. Ef þú segist vera að fara til læknis og þú eigir eftir að fá endurgreitt frá sjúkratryggingum — það sem ég er að reyna að segja er að flækjustigið er svo gríðarlegt að það er erfitt að hugsa sér hvernig þetta allt á að tala saman. Og svo getum við velt því fyrir okkur hvort — ég myndi aldrei fella heilbrigðisþjónustu undir þetta. Ég myndi einmitt tala um að þetta sé það sem er valkvætt eða í sambandi við menningu eða að fólk vilji lyfta sér upp vegna þess að annars erum við að gefast upp á því að grunnþjónustan sé tryggð um allt land og það finnst mér vera stóra málið.