150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að ræða Akureyrarflugvöll og hversu litlu fjármagni er varið í að byggja upp þann flugvöll og raunar líka einfaldlega í að viðhalda honum og gera honum kleift að nýtast almennilega sem alþjóðaflugvöllur. En því miður er það sama upp á teningnum hvað varðar Egilsstaðaflugvöll.

Ég vísaði áðan í breytingartillögu meiri hluta samgöngunefndar sem er nýjasta útgáfan af því hvernig þetta á að líta út varðandi innanlandsflugvellina. Þar birtist tafla yfir flugvelli. Akureyri er þar, eins og ég fór yfir áðan, einnig Egilsstaðir. En hvernig eru horfurnar? Þar er gert ráð fyrir að í yfirborðsviðhald flugbrauta og hlaða fari á þessu ári 0 kr., á því næsta 0 kr., árið 2022 0 kr., 2023 0 kr. og 2024 0 kr., sem sagt ekkert um fyrirsjáanlega framtíð. Hvað með byggingar og búnað? 0 kr. á þessu ári, 0 kr. á því næsta. En svo eru það 35 milljónir árið 2022, en svo aftur 0 kr. og 0 kr. árið þar á eftir. Ýmis leiðsögu- og ljósabúnaður og leiðrétting frávika, 3 milljónir á þessu ári, en svo 0 kr., 0 kr., 0 kr. og 0 kr.

Uppi eru áform um að færa Egilsstaðaflugvöll undir Isavia án þess að það fjármagn fylgi sem þarf til að byggja þar upp. Þessi áform litu dagsins ljós áður en Covid-faraldurinn gjörbreytti rekstrarstöðu Isavia. En jafnvel þó að staðan væri enn eins fjárhagslega sterk og hún var og horfur voru á, þá er það vandkvæðum bundið, raunar eiginlega ómögulegt, að flytja fjármagn beint frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík, tekjur af honum, og nýta í innanlandsflugvellina. Leiðin til að gera þetta er í gegnum ríkið með því að ríkið taki arð hjá Isavia og nýti þann arð til að byggja upp innanlandsflugvellina. Svoleiðis að þær hugmyndir sem uppi hafa verið eða áform um að blanda Isavia í þetta virðast mér fyrst og fremst snúast um að losa sig við vandamálið, því að það virðist vera litið á þessa flugvelli sem vandamál frekar en tækifæri, losa sig við það til þessa opinbera hlutafélags til að þurfa ekki að standa frammi fyrir því að kynna áform eins og þessi, þar sem er meira og minna 0 kr. öll árin í þessa mikilvægu flugvelli.

Það er ágætt að setja þetta í samhengi við umfjöllun samgönguáætlunar til næstu fimm ára um flugvelli og flugvallaþjónustu, bæði í samhengi við Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll, því að þar stendur, með leyfi forseta:

„Til þess að alþjóðaflugvellir í grunnneti, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvellir, uppfylli samræmdar kröfur EES-samningsins í reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli er nauðsynlegt að setja upp aðflugsljós á fimm flugbrautum á þessum flugvöllum.“ — Það er beinlínis nauðsynlegt til að uppfylla reglugerðir. Svo segir: — „Leita þarf leiða til þess að tryggja fjármagn fyrir framkvæmdina sem þarf að vera lokið fyrir árslok 2021.“

Hér er verið að kynna samgönguáætlun til næstu fimm ára og aðra til 15 ára og það kemur fram að setja þurfi verulegt fjármagn í flugvellina en fjármagnið fylgir ekki. Það er einfaldlega sagt: Leita þarf leiða til að finna fjármagnið. Og annað er eftir þessu, með leyfi forseta:

„Ratsjárbúnaður Akureyrarflugvallar er kominn til ára sinna og er vandlega fylgst með virkni hans. Áætlaður endurnýjunarkostnaður nemur allt að 1.000 millj. kr. og er hann ekki inni í samgönguáætlun.“

Þetta er allt á sömu bókina lært, herra forseti.