150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fjalla um stóru innanlandsflugvellina, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ég ætla að láta staðar numið í þeirri umfjöllun að sinni þó að auðvitað séu fjölmargir aðrir flugvellir sem ástæða er til að fjalla um. Vonandi gefst öðrum þingmönnum tækifæri til þess, annars kem ég e.t.v. aftur að umræðuefninu.

En það sem ég hafði hugsað mér að ræða núna eru samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. samgöngur fyrir bíla, fyrir fjölskyldubílinn. Við þingmenn Miðflokksins erum stundum spurð af fulltrúum hinna flokkanna: Ef þið viljið ekki borgarlínu, hvað viljið þið þá til þess að leysa málin? Í fyrsta lagi er það ráð auðvitað að fara ekki í verkefni sem gerir ástandið verra, eins og borgarlína mun gera með því að þrengja mjög verulega að umferðinni á mikilvægustu samgönguæðunum. Í öðru lagi þarf að ráðast í uppbyggingu samgöngukerfisins svo að það sé fært um að dreifa umferð um höfuðborgarsvæðið á Íslandi í samræmi við eðli þess. Það þarf nefnilega að líta til eðlis byggðarinnar þegar menn hanna samgöngumannvirki.

Það er ágætt í þessu samhengi að líta til greinar sem Gestur Ólafsson skrifaði í Morgunblaðið núna í vikunni, en Gestur er mjög fær skipulagsfræðingur, arkitekt, og er fyrrverandi forstöðumaður Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins. Í greininni, sem ber yfirskriftina Skipulag sem skilar bæði sparnaði og minni mengun, nefnir Gestur það í upphafi að flestir sem kynni sér skipulag þéttbýlis að einhverju marki komist fljótt að því hversu miklu máli skiptir að það sé auðvelt og hagkvæmt að leggja fráveitukerfi frá væntanlegri byggð og skipuleggja gatnakerfi sem þjónar íbúunum vel. Það sé lykilatriði þegar byggðin er að stækka að skipuleggja strax með þeim hætti að vegasamgöngur séu til þess fallnar að færa fólk til og frá byggðinni. En svo segir aðeins neðar, með leyfi forseta:

„Á höfuðborgarsvæðinu hefur þessum málum því miður ekki verið gefin sú athygli sem þau verðskulda undanfarna áratugi og hægt er að fullyrða að unnt sé að spara íbúum þessa svæðis marga milljarða á hverju ári, draga umtalsvert úr mengun og stuðla að auðveldari samskiptum og verðmætasköpun með því að taka þessum málum nauðsynlegt tak.“

Svo er rifjað upp hvernig staðið var að breytingu á skipulagslögum, þ.e. valdi yfir skipulagsmálum á Íslandi, árið 1998 þegar skipulagsvaldið var nánast í heilu lagi fært frá ríkinu til sveitarfélaga. Þar var gengið mun lengra en flest önnur lönd hafa gert hvað þetta varðar. Ríkið gaf í rauninni frá sér nánast allt vald yfir þessum málum og ég hef áður gagnrýnt að ég telji að illa hafi verið að því staðið. Gestur bendir reyndar á að með svokölluðu landsskipulagi til 12 ára hafi ríkið aðeins reynt að klóra í bakkann en það segir hins vegar ekkert um hvað skuli gera ef ágreiningur verður milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þá gilda væntanlega bara skipulagslögin og afstaða sveitarfélaga. Þetta hefur valdið heilmiklum vandræðum, ekki hvað síst í tilviki Reykjavíkur varðandi til að mynda Sundabraut þar sem borgin, má segja, misbeitir skipulagsvaldinu til þess að hindra lagningu Sundabrautar, sem er gríðarlega mikilvæg framkvæmd eigi gatnakerfi og vegakerfi borgarinnar að geta flutt þá umferð sem flytja þarf til og frá borginni og innan borgarinnar. Gestur bendir á að ef önnur ríki, eins og Bandaríkin og Þýskaland, hefðu haft sama háttinn á, þá hefði aldrei orðið til þjóðvegakerfi þessara landa, autobanarnir frægu í Þýskalandi eða amerísku þjóðvegirnir sem liggja þar á milli fylkja.

Ég er rétt að byrja á þessari umræðu, herra forseti, og bið forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.