150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fara yfir umsögn dr. Trausta Valssonar um borgarlínu, en hann er einn helsti skipulagsfræðingur okkar við Háskóla Íslands, prófessor emeritus og arkitekt. Ég hef sagt að það sé eðlilegt að við hlustum á helstu sérfræðinga okkar í skipulagsmálum þegar við ræðum svo stórt mál sem borgarlínu, vegna þess að það felur í sér umfangsmiklar framkvæmdir sem kosta mikla peninga. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að menn hlusti á þá sem vel þekkja til í málaflokknum og Trausti hefur sett fram mjög athyglisverðar athugasemdir við verkefnið. Hann ræðir um borgarlínu og segir hér, með leyfi forseta:

„Í fljótu bragði gæti maður haldið að línurnar gætu sparað kostnað, t.d. í stofnbrautum eða í hefðbundnum strætókerfum. Því miður yrði það mjög lítið. Fyrir tíu árum ákvað hbsv [þ.e. höfuðborgarsvæðið] í samvinnu við Ögmund [Jónasson] samgönguráðherra, að taka þann milljarð sem farið hefur í stofnbrautir frá ríkinu á ári, og láta féð renna til strætós og stíga í tíu ár, þ.e. alls tíu milljarða. Þessi samningur hefur þýtt að í stofnbrautakerfinu [hefur mörgum] mikilvægum verkefnum ekki verið sinnt, þau safnast upp og flöskuhálsar orðið til. Úr þessu er nú orðið mjög brýnt að leysa. Þegar það hefur verið gert fer umferðin aftur að flæða eðlilega.“

Trausti leggur áherslu á að vandinn á álagstímum sé að stórum hluta til kominn vegna þess að fé hefur ekki farið í stofnbrautir eins og það hefði átt að gera. Það var hins vegar lagt í að reyna að auka notkun á strætó sem hefur síðan ekki skilað því sem menn voru að vonast til. Síðan nefnir Trausti nokkur brýn verkefni í stofnbrautakerfinu og segir, með leyfi forseta:

„Í svona vanræktar framkvæmdir verða fjárframlögin frá ríkinu að fara á næstu árum. Tilkoma borgarlínu einhvern tímann í framtíðinni mun ekki leysa svona vandamál.“

Trausti bendir á, sem er athyglisvert, að það er 400 m breitt belti meðfram borgarlínunni þar sem stendur til að byggja mjög þétt. Hann telur þá íbúabyggð mjög óaðlaðandi og segir að hún sé í raun og veru versta atriðið í sambandi við borgarlínuna. Borgarlínutillögunum fylgja svokölluð upptökusvæði línanna, en þau eru um 400 m breiðir borðar til beggja handa. Á þessum svæðum telur Trausti líklegt að fólki þyki ekki of langt að fara út á brautarstöðvarnar. Það er kannski hugmyndin með þessu, að stutt sé að fara á brautarstöðvar. Hann heldur áfram:

„Á þessum upptökusvæðum búa í dag miklu færri íbúar en þörf er á til að standa undir rekstri línanna. Þess vegna gerir skipulagstillagan ráð fyrir að meðfram borgarlínunum verði, á báða vegu, reist þétt blokkabyggð, sem u.þ.b. tvöfaldi íbúafjöldann á upptökusvæðunum til ársins 2040. Það er á þessum þröngu línusvæðum sem mestur hluti nýrra íbúða á hbsv [þ.e. höfuðborgarsvæðinu] á að rísa, með íbúafjölda sem samsvarar núverandi samanlögðum íbúafjölda Kópavogs og Hafnarfjarðar. Kostur við að búa í þessum blokkum er að stutt er í strætó eða lest, en ókostirnir eru hins vegar margir: Þéttleiki svæðanna og lega húsanna upp að línunum þýðir að lítið yrði um garða og bílastæði. Svona línubyggð nær, að auki, aldrei að vera skemmtileg miðborgarbyggð, heldur er byggðin langdregin og leiðinleg.“

Þetta segir einn okkar helsti skipulagsfræðingur, Trausti Valsson, þegar hann ræðir um borgarlínuna og áform um hana. Ég held að það sé rétt að (Forseti hringir.) það komi fram vegna þess að við eigum að hlusta (Forseti hringir.) á þá sem þekkja vel til í þessum efnum. (Forseti hringir.)

Ég sé að tíminn er liðinn og bið forseta vinsamlega að (Forseti hringir.) setja mig aftur á mælendaskrá.