150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég get ekki neitað því að ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Ólafur Ísleifsson sem hér talaði. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen um daginn. En það er líka annað sem blasir við og opinberar okkur þau vandræði sem eru í Sjálfstæðisflokknum út af samgönguáætlun og út af borgarlínuhugmyndinni. Í fyrsta lagi hefur oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ekki verið yfirlýstur stuðningsmaður þess að borgarlína sé sett upp með þeim hætti sem hún hefur verið boðuð. Að vísu er búið að boða borgarlínu á svo margan misvísandi hátt að honum er kannski vorkunn að taka ekki afstöðu til þess sem er núna bragð mánaðarins, ef við getum kallað svo.

Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Kr. Guðmundsson, sem er einn helsti sérfræðingur Íslendinga í umferðarmálum og var lengi starfsmaður alþjóðlegrar stofnunar um umferðaröryggi, hefur skrifað greinar og tekið saman efni sem sýnir hvernig borgarstjórnarmeirihlutinn er vísvitandi að þrengja að vegstæði Sundabrautar. Og það vill þannig til, herra forseti, ég held ég hafi minnst á þetta áður í ræðu, að á 17. júní, í fyrradag, á þjóðhátíðardaginn, lá mönnum svo á í Reykjavík að þeir voru að steypa húsgrunna, það voru steypuframkvæmdir uppi í Gufunesi þar sem verið er að koma fyrir einhverri byggð sem á að vera vistvæn. Það er verið að setja hana í vegstæði Sundabrautar. Hinum megin við er verið að setja bráðabirgðahús fyrir fólk sem, eigum við að segja, lifir á jaðrinum, er heimilislaust, í neyslu. Það er búið að setja upp grunn að húsum fyrir það ágæta fólk í vegstæði Sundabrautar. Maður hefði haldið að önnur staðsetning hefði kannski verið hagstæðari, bæði fyrir þennan viðkvæma hóp og fyrir borgina, þ.e. að húsnæði fyrir minnstu bræður okkar og systur væri einhvers staðar nær miðju höfuðborgarsvæðisins en ekki í útjaðri, bara svo að það ágæta fólk komist að og frá, eins og maður segir.

Ólafur er búinn að skrifa og búinn að taka saman allmikið efni um þetta sem ég þarf örugglega að fara yfir í næstu ræðum mínum vegna þessa framferðis sem borgin sýnir uppi í Gufunesi og víðar. Það er reyndar líka annað sem er í óvissu núna, það eru mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Breiðholtsbrautar. Það eru fjölfarin gatnamót og þar hefur orðið mikið af slysum. Það er verið að reyna með öllum ráðum, herra forseti, að koma í veg fyrir að þau gatnamót verði sett upp. Þeir sem búa í uppsveitum Reykjavíkur kannast örugglega við það að umferðarhnúturinn sem er einmitt áleiðis upp í Breiðholt síðdegis flesta daga er ekki síst vegna þess að á þessum gatnamótum eru umferðarljós sem hægja mjög á allri umferð. Þess vegna er það óskiljanlegt að menn skuli ætla að reyna að koma í veg fyrir með einhverjum hætti að þessi mislægu gatnamót séu sett upp akkúrat þarna.

Ég verð að fara betur yfir þetta og viðhorf Ólafs Kr. Guðmundssonar í næstu ræðu, sem ég bið hæstv. forseta um að skrá mig í.