150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram að fræðast um skosku leiðina og vitna í skýrslu sem hópur atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar um innanlandsflug tók saman og var sérstaklega gerð til að svara helstu spurningum. Þetta er ágætisplagg, eins og ég sagði hér síðast, og er ég komin að því þar sem er fjallað um félagslegan og fjárhagslegan ávinning fyrir landsbyggðina. Talað er um að þetta auki lífsgæði og ég held að það sé algerlega rétt. Það má reikna með að þetta auki félagslega þátttöku í samfélagi höfuðborgar allra landsmanna, eins og er sagt hér. Því er haldið fram að það verði lægri flugfargjöld, sem vitað er, þegar þetta eru afsláttarkjör, og við getum þá líka velt því fyrir okkur hvort þetta muni ekki létta álagi á vegum landsins. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Grunnþjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta, hefur víða verið skorin niður á landsbyggðinni á sama tíma og hún er efld á höfuðborgarsvæðinu. Því mun ADS“ — eða skoska leiðin — „gera landsbyggðafólki auðveldara að sækja sameiginlega greidda grunnþjónustu sem þeir fá ekki í sínu nærsamfélagi.“

Mér finnst þetta mjög merkileg staðhæfing vegna þess að það hlýtur að vera til eitthvað sem heitir lögbundin grunnþjónusta og hana á ekki aðeins að veita á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki alveg sammála þessu atriði. Það felst í því ákveðin uppgjöf ef það er meira að segja gefið í skyn að við séum að sætta okkur við það að sækja grunnþjónustu á sviði heilbrigðismála til höfuðborgarsvæðisins og til þess að hafa aðgang að henni þurfum við að kaupa okkur niðurgreitt flug. Þó svo að flugið verði niðurgreitt, segjum um 50%, ef við förum alla þá leið sem skoska leiðin býður upp á, þá standa alltaf 50% eftir. Ég get ekki alveg hugsað það til enda fyrir landsbyggðarfólk.

Því er svo haldið fram að rekstrarskilyrði flugfélaga myndu styrkjast, og ég efast ekki um það, og að aukin nýting yrði á fluginu. Þetta helst í hendur. Ef við ætlum að sætta okkur við það að skera niður grunnþjónustu á landsbyggðinni og að það sé ásættanlegt að við sækjum alla þjónustu til höfuðborgarsvæðisins þá er þetta auðvitað hið besta mál. En ég er ekki alveg viss um að fólk sé almennt sammála því. Á þeim fundum sem ég sit með þingmönnum í kjördæmi mínu, hvar sem þeir eru í flokki, berjast þeir svo sannarlega fyrir málefnum kjördæmis míns, ef ég get sagt sem svo. En á sama tíma er þetta algerlega að gerast á þessari vakt, þannig að ég er pínu leið yfir því.

Talað er um það í skýrslunni að þetta muni standa yfir í langan tíma, þ.e. að þessi áætlun verði í gangi um ókomna framtíð, ef ég get sagt það þannig. Hún hefur verið í gangi í Skotlandi síðan 2005 og virðist virka mjög vel þar. Það þarf auðvitað að sjá til þess að það séu til peningar í þetta allt saman og spurningin er, miðað við hvernig allt horfir núna í ríkisbúskapnum, hvort raunverulega sé hægt að fara inn í þetta af fullum þunga, sem gæti verið ágætishugmynd en spurningin er alltaf hvort hún sé raunhæf.