150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann af því að hún er úr Norðausturkjördæmi og kom aðeins inn á það í máli sínu. Ég skil áhyggjurnar af ákveðnum hlutum sem hún fór ágætlega yfir. En í samgönguáætlununum tveimur sem við erum að ræða hér, og ég tala nú ekki um öðrum frumvörpum sem eru nátengd þessu og eru í þessum samgöngupakka, er að finna gríðarlega miklar samgöngubætur í kjördæmi hv. þingmanns. Mig langar að spyrja örsnöggt: Hvað af þeim samgöngubótum er hv. þingmaður ánægðastur með og vill að við förum að koma sem fyrst í gagnið?