150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:39]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Forseti. Svo að ég svari hv. þingmanni þá hefur mér orðið tíðrætt um öryggishlutverk flugvalla af því að ég held að það hljóti að vera ofar öðru. Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af stóru flugvöllunum í mínu kjördæmi, en við erum samt sem áður að ræða að Egilsstaðaflugvöllur mun fá bætingu á akbraut en ekki flugbraut. Svo erum við með sjúkrahús á Norðfirði. Þar voru það beinlínis heimamenn sem gengu í það verk ásamt ríkisstjórninni að laga aðstæður þannig að sjúkraflugið gæti lent þar. Þó stendur þar eftir, hef ég lesið í samgönguáætluninni til langs tíma, að laga þarf aðflugsljósabúnað til þess að hægt verði að nýta flugvöllinn alveg 100%. Það leiðir mig aftur að Egilsstaðaflugvelli vegna þess að sjúklingum er flogið til Egilsstaða í sjúkraflugvél og þeir þurfa síðan að fara í bíl til Norðfjarðar. Það skapar ákveðna óvissu og til að flækja málið enn frekar er oft um það að ræða að komast í myndatöku. Það er svokallaður CT-skanni á Norðfirði. Hann er ekki á Egilsstöðum og ég veit að heimamenn á Egilsstöðum hafa bent á það ítrekað að það myndi bæta öryggi, sérstaklega ferðamanna sem ekki fara lengra en svo að vera í kringum Egilsstaði. Ef þeir lenda í slysi þarf að keyra þá til Norðfjarðar til að keyra þá aftur til Egilsstaða þar sem sjúkraflug bíður þeirra.