150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég verð að lýsa smávonbrigðum með það þar sem ég spurði hvað hv. þingmaður væri ánægðastur með í því sem væri að finna í samgönguáætlun. En það er í lagi. Þetta er ekki það sem ég hef orðið fyrir mestum vonbrigðum með í þessari umræðu. Ég hefði nefnilega haldið að hv. þingmaður væri hæstánægður með þann hluta sem hennar kjördæmi fær í samgönguáætlun og myndi taka höndum saman með okkur sem viljum keyra margar framkvæmdir í gang. Eigum við að nefna verulega styttingu á veginum með því að gera Axarveg almennilega, sem hangir saman með samvinnuverkefni? Það er búið að bíða áratugum saman og er forsenda sameiningar sveitarfélaga í kjördæmi hv. þingmanns og er kallað virkilega eftir og Vegagerðin hefur sagt að hún bíði bara eftir að Alþingi samþykki samgönguáætlun, samþykki frumvarp um samvinnuverkefni þar í kjölfarið sem er nátengt samgönguáætlun til að hægt sé að byrja núna. Ekki á næsta ári — núna. En hv. þingmaður og kollegar hans í flokknum, tafaflokknum sem vill tefja allar framkvæmdir, (Gripið fram í.) geta ekki tekið ákvörðun og þurfa 20–30 ræður hver til að tefja framkvæmdir úti um allt land í eigin kjördæmum. Þeir standa í vegi fyrir því framkvæmdir á Öxi hefjist.

Mig langar að spyrja hvað hv. þingmaður er tilbúinn að segja beint við kjósendur sína á Austurlandi sem eru að fara að sameina sveitarfélögin og bíða eftir því að við klárum samgönguáætlun og samvinnuverkefni svo að hægt sé að hefja framkvæmdir við Öxi. Hvað ætlar tafaflokkurinn að segja við því?