150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:43]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Ég veit ekki betur en að það standi ekkert í vegi fyrir því að farið sé af stað með Öxi. (Gripið fram í.) Vegagerðin er með fulla heimild til að fara inn í það verkefni. Það þarf bara að fara að bjóða það út og við erum ekki að stoppa það hér, svo það sé sagt, vegna þess að það er áætlun í gangi. Ég veit að Norðausturkjördæmi er ekkert á topp tíu lista yfir forgangsröðun meðan við erum að fara að setja 50 milljarða í borgarlínu sem þjónustar 4% notenda eins og staðan er í dag. Það er það sem ég er ítrekað að benda á. (Gripið fram í.) Mér finnst mjög ósanngjarnt gagnvart öllum öðrum íbúum að við séum að setja slíkt fjármagn í þau 4% sem nota núna almenningssamgöngur. Ég tel að ekki sé fullreynt að reyna að laða fleiri inn í almenningssamgöngur.

Ég get ekki sagt að ég sé ánægðust með eitthvað. Þó get ég tekið undir orð margra í mínu kjördæmi sem eru mjög þakklátir fyrir hverja krónu sem þeir fá. Þeir eru svo þakklátir að þeir eru orðlausir yfir þeim fjármunum sem á að leggja í borgarlínu, 50 milljarða. Á kostnað hvers? Hugsanlega öryggis íbúa, bara svo það sé sagt. (KÓP: Töluvert ódýrari en …)