150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram með þennan spurningalista sem ég nefndi í síðustu ræðu frá umhverfis- og samgöngunefnd 19. maí sl. Það eru þrjár spurningar sem ég ætlaði að taka fyrir. Fyrsta af þeim er um borgarlínu:

„Er til greining á því hvar BRT-vagnar eru ætlaðir í almennu flæði umferðar? Þ.e. þar sem er þröngt um hvað þversnið vegar varðar.“

Hér segir í svarinu frá Vegagerðinni:

„Í frumdragavinnu borgarlínu eru skoðuð mismunandi þversnið sem miða að því að byggja nýjar akreinar fyrir sérrými borgarlínu og að nýta núverandi akreinar fyrir sérrýmið. Lagt er mat á kosti og galla mismunandi lausna. Þar sem byggð er þétt og göturýmið er þröngt og ekki hægt að breikka það með góðu móti, er lagt til að vagnarnir aki í blandaðri umferð með almennri umferð. Blönduð umferð mun að öllum líkindum verða á hluta Borgarholtsbrautar, Hverfisgötu, Laugavegur milli Rauðarárstígs og Katrínartúns, Hringbraut milli Suðurgötu og Bjarkargötu ef sú leið verður valin. […] Samhliða frumdragavinnu er unnið að mati á umhverfisáhrifum þar sem íbúum og hagsmunaaðilum gefst tækifæri á að koma sínum athugasemdum á framfæri […]“

Næsta spurning er þessu tengd, um umferðarmódel fyrir höfuðborgarsvæðið, stöðu og aðkomu sveitarfélaga. Í svarinu segir:

„Verið er að leggja lokahönd á smíði á nýju samgöngulíkani sem sýnir umferð bíla, almenningsvagna og hjólandi vegfarenda fyrir árin 2024, 2029 og 2034 miðað við þær framkvæmdir sem eru áætlaðar samkvæmt samgöngusáttmálanum. Líkanið er unnið sem samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og SSH undir stýringu verkefnastofu borgarlínu. Líkanið mun verða tilbúið sumarið 2020 og verða eign Vegagerðarinnar og SSH. Vegagerðin mun hýsa líkanið eftir að það er tilbúið og annast utanumhald þess og mun Vegagerðin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta notað líkanið í framtíðarverkefnum.“

Þetta er líkan sem enginn veit náttúrlega hvernig lítur út í dag því það á að vera tilbúið núna síðsumars. Hér á dagskrá er þingsályktunartillaga þar að lútandi, um stofnun opinbers hlutafélags sem verður með yfirumsjón yfir þessu samstarfsverkefni sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Vald kjörinna fulltrúa er tekið þar með eða aðkoma þeirra er afskaplega lítil að þessu máli. En við eigum að fara að greiða atkvæði um stofnun þessa félags og í raun og veru, eins og segir í svarinu, er ekki búið að undirbúa vinnuna við þessa borgarlínu, hvernig hún á að vera, framkvæmdaáætlanir. Það er verið að skjóta á einhvern kostnað, talað um 50 milljarða en líka talað um eitthvað meira. Það er líka verið að hræra með það hver vegalengdin verður og annað slíkt þannig að þetta er einhvern veginn algerlega upp í loft. Stjórnmálamenn eiga ekkert að koma að þessu að öðru leyti en því að stofna opinbert hlutafélag sem verður afhent stýrivaldið til að stjórna þessum framkvæmdum og hafa þar með boðvald að einhverju leyti yfir sveitarfélögunum, sem þurfa þá að vinna samkvæmt því. Það líst okkur ekkert á sem erum að mótmæla þessu máli.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir að verða settur á ný á mælendaskrá.