150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var byrjaður að fara yfir mikilvægi þess að byggja upp stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu en ég stenst ekki mátið að benda á hið augljósa, að nú eru þingmenn og einhverjir varaþingmenn Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs orðnir afskaplega litlir í sér út af þessu máli og farnir að tjá sig með sérkennilegum hætti á samfélagsmiðlum. Svo birtist hér æsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar með sömu skilaboð, þau að Miðflokkurinn sé að stöðva framkvæmdir í samgöngumálum á Íslandi. Fólk sem talar svona hefur ekki mikið álit á greind hugsanlegra kjósenda sinna enda augljóst að það að ræða hér hvernig betur megi standa að samgöngubótum á Íslandi, hvernig betur megi verja fjármagni en áformað var samkvæmt samgönguáætlun, er ekki til þess fallið að skemma fyrir samgöngumálum, aldeilis ekki, þvert á móti. Ég hvet fólkið sem hefur þessar áhyggjur og ímyndar sér, eða reynir að halda því fram, að þó að haldinn sé aukaþingfundur okkur til heiðurs hér á laugardegi stöðvi það allar framkvæmdir í samgöngumálum til framtíðar. Ég hvet þetta fólk til að taka frekar þátt í umræðunni og fara yfir það með okkur hvers vegna best er að gera hlutina eins og lagt var upp með og bregðast við ábendingum okkar um það sem betur má fara.

En aftur að stofnbrautunum á höfuðborgarsvæðinu. Ég var að vísa í grein Gests Ólafssonar sem birtist í Morgunblaðinu í þessari viku þar sem hann rekur mikilvægi þess að huga ekki hvað síst að stofnbrautum og skipuleggja fram í tímann. Hann lýsir þessu á snilldarlegan hátt í greininni. Ég ætla að vitna beint í hana, með leyfi forseta:

„Margar aðferðir hafa verið þróaðar á undanförnum áratugum til þess að forðast að taka á málum á raunhæfan hátt. Algengt er að fjallað sé um mál svo þokukennt að engin leið er fyrir almenning að gera sér grein fyrir því við hvað er átt og hverjar verða afleiðingarnar, talað er óljóst um einhverjar „framtíðarsýnir“, og einhver fenginn til að teikna fallega litmynd af þeim — eða málið sett bara í nefnd valinkunnra sæmdarmanna sem skila niðurstöðu eftir dúk og disk. Samt er löngu vitað að til þess að hægt sé að kalla eitthvað sem verið er að stefna að „markmið“ þarf það að fullnægja a.m.k. fjórum skilyrðum: Það þarf að vera skilgreint og mælanlegt; fjármögnun þarf að vera tryggð; það þarf að vera tímasett og einhver þarf að vera ábyrgur fyrir framkvæmdinni. Ef við getum ekki talað um skipulag á þessum nótum er oft eins gott að sleppa því.“

Þetta hefur einmitt verið vandamálið, ekki hvað síst varðandi stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu. Það eru skipaðar nefndir og það eru sýndar glærusýningar en það er ekki tekin ákvörðun um að fara í framkvæmdina og hún er ekki fjármögnuð. Og nú sjáum við svo skýrt í þessari samgönguáætlun að fjármagnið vantar. Langtímaáætlunin til 15 ára gerir ráð fyrir hinu og þessu en fjármagnið vantar. Jafnvel er stuðst við orðalag eins og ég vitnaði til í síðustu eða þarsíðustu ræðu: Finna þarf leiðir til að fjármagna þetta. Og ein af leiðunum sem menn velta upp núna er aukin gjaldtaka á almenning með því sem áður hétu tafagjöld og hafa nú verið endurskírð flýtigjöld, eins öfugsnúið og það nú er. Það er ekki einu sinni vitað með hvaða hætti á að innheimta þessi gjöld. Það er lögð fram samgönguáætlun þar sem byggt er á áformaðri gjaldtöku af almenningi en menn virðast ekki hafa hugmynd um hvernig eigi að innheimta gjöldin. Eins og Gestur segir í greininni: „Lagning stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu á sér sorgarsögu.“

Ég hef ekki tíma til að fara meira út í þá sorgarsögu sem hann lýsir ágætlega. En þetta er einmitt orðið. Þetta er sorgarsaga, ég tala nú ekki um eftir að framkvæmdastoppið var sett á fyrir áratug. Ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.