150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég held að ég sé við það að vera komin í gegnum skosku leiðina. Ég hef aflað mér upplýsinga um hana og ég er komin að þeim kafla sem fjallar um fjármögnun og hvenær hægt er að byrja. Miðað við þær upplýsingar er hægt að byrja um leið og fjármögnun liggur fyrir og auðvitað tekur einhverja mánuði að finna hagaðila sem koma að verkefninu og hvernig best er að útfæra það. Í fyrri ræðum hef ég gefið glögga mynd af því, að það sé ætlast til þess að þeir geti nýtt sér skosku leiðina sem búa á skilgreindum landsvæðum eða eru þar með lögheimili. Þeir sem njóta góðs af þessu eru þjónustuveitendur á höfuðborgarsvæðinu, er talað um, því að þetta snýr að því gegnumgangandi að auka aðgengi fólks af landsbyggðinni að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er líka tiltekið hvort þessi aðgerð, skoska leiðin, bitni á einhverjum. Þá kem ég aftur að þeim gagnrýnispunkti að aukið aðgengi að höfuðborginni getur veikt aðgang að grunnþjónustu í heimabyggð og veikt rekstrargrundvöll ýmissa þjónustuveitenda. Við erum oftast nær að reyna að berjast fyrir því að viðhalda þeirri þjónustu. Ég nefndi það í fyrri ræðu að þingmenn Norðausturkjördæmis hafa staðið með sínu fólki þar þannig að þetta er dálítið mikið atriði í mínum huga. Hliðarverkunin af því að þjónusta sé veitt á höfuðborgarsvæðinu dregur enn frekar úr þjónustu hringinn í kringum landið. Hér er tekið dæmi sem mér finnst mikilvægt að komi fram, með leyfi forseta:

„Íbúi á Ísafirði sem þarf í dag að greiða um 44.300 kr. fyrir flug til Reykjavíkur og til baka þegar bókunarfyrirvari er skammur gæti átt kost á flugi til Reykjavíkur fyrir 22.150 kr. ef ADS væri til staðar. Fyrir þennan íbúa gæti þetta haft úrslitaáhrif um hvort hann mætir í fertugsafmælið hjá bróður sínum. Kostnaðurinn við aðrar leiðir til að komast til Reykjavíkur í tíma og fjármunum veltur á því hvað er tekið með í útreikninginn; fastakostnaður, breytilegur kostnaður, tími á akstri o.s.frv.“

Þarna er ekki endilega nefnt dæmi um þjónustu heldur afmæli. Það er kannski það sem ég get kvittað undir, ef svo má segja, að þessi niðurgreiðsla eigi að felast í því að skerða ekki þann kost sem fólk hefur á þjónustu í sinni heimabyggð.

Þá er því velt upp hvort þessi stuðningur muni gagnast öllum flugvöllum landsins. Þá vil ég enn og aftur koma því að við erum með minni flugvelli hringinn í kringum landið sem þurfa gott viðhald og mikilvægt að það haldist í hendur. Síðan er spurning hvort þetta hafi áhrif á ferðaþjónustu. Það má alveg gefa sér að þetta muni jafnvel stuðla að bættri ferðaþjónustu og þjónustan ætti þá að gagnast bæði ferðamönnum og heimamönnum þó svo að ferðamenn hafi auðvitað ekki aðgang að skosku leiðinni. En eftir stendur alltaf það að ég óttast að þjónusta, jafnvel lögbundin þjónusta, verði smátt og smátt tekin niður í smærri byggðarlögum á landsbyggðinni. Það er því mikil spurning í mínum huga hvort þetta sé rétt.